Komin til Chile


Hæhó !

Þá er ég komin í siðmenninguna í Chile eftir að hafa verið um tvo mánuði á Suðurskautinu.  Maður aðlagast aðstæðum fljótt og mér finnst eins og ég hafi verið hér í gær, svona líður tíminn hratt þegar mikið er um að vera.  Það var góð tilfinning að komast í sturtu, greiða hárið ( 3klst verk J ) og sofa við hrein rúmföt í rúmi.

Það var stórkostleg stund að ná á Suðurpólinn, ég var örlítið klökk síðustu kílómetrana og stundum læddust tár niður kinnarnar milli þess sem ég flissaði af gleði. Þetta er mikill tilfinninga rússíbani, gleðin yfir því að ná markmiðinu og treginn yfir því að verkefnið sem hefur átt hug manns og hjarta í svo langan tíma sé búið.  Þakklæti er mér efst í huga. Þakklæti til allra þeirra sem hjálpuðu mér við að láta drauminn rætast, þakklaæti til allra þeirra sem studdu mig á einn eða annan hátt, þakklæti fyrir allar kveðjurnar og ekki síst er ég þakklát fyrir að hafa komist heil á leiðarenda. Það er margt sem getur komið upp í leiðangri sem þessum og verður til þess að menn þurfa hætta eða jafnvel verða fyrir líkamstjóni af einhverju tagi.

Þetta hefur verið gríðarlega mikil reynsla og upplifun. Það á eftir að taka mig góðan tíma melta þetta en ég kem sem sterkari einstaklingur út úr þessum leiðangri og það eitt er fyrirhafnarinnar virði.  Á sama tíma og ég þurfti að yfirvinna margar áskoranir voru gleðistundirnar margar.  Að  njóta kósy stundanna í tjaldinu, skíða á fullu blússi á björtum degi  auk þess að upplifa algjöran frið.

Ég er einnig búin að kynnast mörgum skemmtilegum einstaklingum frá öllum heimshornum.  Á Suðurskautinu safnast saman einstaklingar með óbilandi ævintýraþrá og  hver og einn hefur sögu að segja. Við flesta nær maður að tengja strax og um mikið er að spjalla og algengasta spurningin er:  Hvað ætlarðu svo að gera næst?    Ég var svo heppin að þegar ég kom á Suðurpólinn voru þar 4 strákar frá Suður-Afríku sem tóku vel á móti mér. Mikilir herramenn sem buðu mér upp á heitt te og hjálpuðu mér að setja upp tjaldið.  Þeir eiga að baki mörg ævintýri s.s. Norðurpólinn, Everest og fleiri fjöll.  Í gær buðu þeir  mér svo út að borða og við áttum ánægjulega stund og maturinn var frábær.

Á eftir er ég á leiðinni að hitta íslenska áhöfn á rannsóknarskipinu Posidion sem er statt hér í verkefni. Ég hlakka mikið til, strákarnir ætla að sýna mér skipið og bjóða svo í mat. Það verður  vinalegt að hitta landa sína hér á svo fjarlægum slóðum.  Eftir þrjá daga legg ég svo af stað heim til Íslands og kem heim seint á sunnudagskvöld. Ég er farin að hlakka mikið til að hitta fólkið mitt og vini.

Ég læt þetta duga í bili en myndin hér að ofan frá krökkunum í Heklukoti en þau hafa fylgst vel með leiðangrinum og ég vil þakka þeim sérstaklega vel fyrir.

Kveðja að frá Chile,

Vilborg

 

 

This Post Has 9 Comments

  1. Æðislegt að heyra frá þér Villý og hvað allt hefur gengið vel.
    Þú ert hetja.
    Sjáumst á Íslandi.

  2. Gaman að fylgjast með þér og sjá að allt gengur vel hjá þér. Njóttu sem allra best dagana sem eru eftir af þessu ótrúlega ferðalagi þínu. Kærleiksknús þú ert svo ótrúleg HETJA:-)

  3. Njóttu þín í botn þú ert hetjan okkar og mikið verður gaman að sjá þig þegar þú kenur heim kveðjur og knús á þig að heiman.

  4. Samgleðst þér Vilborg mín að hafa náð þessu markmiði þínu, þú ert og verður alla tíð Pólstjarna okkar Íslendinga,góða ferð heim til Íslands. 🙂

  5. Yndislegt að heyra elsku Vilborg mín – mér finnst þú alveg rosalega dugleg, en ég vissi samt alveg að þú myndir komast alla leið fyrst að þú fórst af stað. Hlakka til að sjá þig þegar þú kemur heim. Risa knús til Chile

  6. Sæl Vilborg…
    Gaman að fá að fylgjast með þér áfram,
    Flott hjá þér hlakka til að sjá í fréttonum þegar þú kemur til Íslands…
    kv frá Hveragerði…

  7. Tækifærið gríptu greitt
    giftu mun það skapa,
    járnið skaltu hamra heitt,
    að hika er sama og tapa.
    Þessi vísa han Steingríms Thorsteinssonar á svo sannarlega við um þig elsku Vilborg mín. Ég ásamt allri fjölskyldunni er að rifna af stolti yfir að eiga svona einstaka frænku.
    Guð geymi þig .

Leave a Reply to Silja Cancel comment reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *