Dawnwall Poster
Dawnwall Poster Snorri Bjorns Og Karen Axels Blum2 Fjallabokin Snorri Bjorns Og Karen Axels

Skemmtileg og hvetjandi afþreying :)

Það eru margir sem hafa eilítið meiri tíma núna þar sem mögum viðburðum hefur verið frestað eða þurfa að vera í sóttkví fjarri öðrum. Það er tilvalið að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt og ef til vill undirbúa sig fyrir komandi tímabil í íþróttum, útivistinni eða hverju sem er.

Ég sjálf á óvænt aðeins lausari tíma þar sem minna er um fyrirlestra og viðburði en árin áður, tímann ætla að reyna að læra nokkur ný orð í Slóvenskunni og taka nokkrar fjallaæfingar. Að gamni tók ég saman nokkra hvetjandi afþreyingarmöguleika á útivistarsviðinu sem ég mæli með fyrir alla, konur og kalla!

Karen Axels

Ég á ekki orð til þess að lýsa aðdáun minni á henni. Sagan hennar, járnvilji og auðmýkt er eitthvað sem getur kveikt í okkur öllum. Karen er líka ein mest hvetjandi kona sem ég hef á ævi minni hitt en hún hefur meðal annars þjálfað hjólamenn og konur í Hreyfingu. Hún náði gríðarlega góðum árangri í þríþrautum, Ironman keppnum og átti íslandsmet karla og kvenna á tímabili. Ferilinn hennar gekk ekki þrautarlaust fyrir sig og baráttan hennar við að ná heilsu aftur eftir slys sýnir okkur hvað er hægt að gera og hún er sönn fyrirmynd fyrir okkur öll. Hér má hlusta bæði á hlaðvarp sem og horfa á viðtal á RÚV

Uphill Athlete

Þetta er vefsíða þar sem hægt er að lesa sér til um hin ýmsu æfingakerfi sem henta fjallafólki vel. Það er alveg sama hvort þú sért að stefna á að keppa í skíðagöngu eða ná upp betra þoli. Ég sjálf nota þessa síðu mikið og þá sérstaklega þegar ég er að æfa mig á markvissan hátt fyrir verkefni.

Scott Johnston og Steve House eru sterkasta teymi í heimi og hafa aðstoðað t.d. Kilian Jornet, Cory Richards og marga fleiri við að ná markmiðum sínum. Saman skrifuðu þeir biblíu allra fjallamanna; TRAINING FOR THE NEW ALPINISM: A MANUAL FOR THE CLIMBER AS ATHLETE.  Frábærlega góð bók sem einnig er hægt að hlusta á t.d. á Itunes og Storytel.

Steve House er vel þekktur fyrir afrek sín í  enda einn af fremstu fjallamönnum heimsins og gaman að segja frá því að hann frumfór leið á Hraundranga með þeim Frey Inga Björnssyni, Jóni Heiðari Andréssyni og Jökli Bergmann árið 2007.  Þá kom hann til landsins og hélt fyrirlestur um ferðir sínar á vegum Íslenska Alpaklúbbsins.

Arlene Blum – A Woman’s Place Is On Top

Ein af mínum uppáhalds er Arlene Blum, þvílík jarðýta og fjallafyrirmynd.  Árið 1987 stýrði hún fyrsta leiðangrinum frá USA á hið margfræga fjall Annapurna. Þetta var kvennaleiðangur og barátta Arlene fyrir því að koma leiðangrinum af stað er virkilega áhugaverð og hvetjandi saga. Leiðangurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig en Annapurna er talið eitt af hættulegustu fjöllum veraldar.  Hér má hlusta á hlaðvarpsviðtal við þessa merkilegu konu.

Dawn Wall á Netflix

Mæli með að poppa og skella einum Kristal í glas.  Sagan hans Tommy Caldwell er einstök og lætur engan ósnortin. Hvort sem þú hefur áhuga á klifri eða ekki að þá lofa ég því að þessi saga mun hafa hvetjandi áhrif en Tommy hefur heldur betur mætt erfiðum hjöllum á lífsleiðinni en náð að snúa vörn í sókn með stórkostlegum árangri. Ég vil ekki fara ofan í efnistök myndarinnar og spilla fyrir því þið verðið að sjá þessa! Hér er linkur á myndina á Netflix.

Vertu úti

Heimasíðan Vertu Úti býður upp á gott úrval greina og þátta um útivst hér á landi. Þau Róbert Marshall og Brynhildur Ólafs eru óþreytandi við að hvetja fólk áfram sem og miðla skemmtilegu efni. Þar er til dæmis hægt að horfa á þættina ÚTI sem voru á dagsrká hjá RÚV þar sem þau bjóða til sín gestum í spennandi ferðir og má meðal annars sjá forsetann sjálfan á Hvannadalshnúk.

Fjallabókin

Jón Gauti er einn ötulasti fræðimaður þjóðarinnar þegar kemur að útivist og hefur kennt ótal námskeið bæði fyrir hinn almenna leikmann og fyrir þá sem eru að byggja upp feril sem leiðsögumenn og leiðbeinendur. Fjallabókin er frábær bæði sem uppflettirit sem og kennslubók sem hægt er að lesa frá a-ö. Það er mikilvægt fyrir alla sem stunda útivist að rifja reglulega upp hvernig maður ber sig að við hinar ýmsu aðstæður s.s. að rata í lélegu skyggni eða hvernig maður býr sig undir vetrarfjallgöngur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *