“recovery” og uppbyggingar tímabil
Hæhó,
Hæhó,
Það er svolítið langt síðan að ég hef skrifað hér inn en ég var í smá sumarfríi í júní og jafnframt var „recovery“ tímabil hjá mér. Það tekur kroppinn smá tíma að jafna sig eftir leiðangra og mikilvægt er að hvíla sig vel og rétt. Ég verð nú að viðurkenna að ég á stundum erfitt með þetta og besta dæmið er þegar ég kom heim af Suðurpólnum og andlega til í slaginn enda hélt ég að ég væri í besta formi lífs míns. Enda hafði ég nú rölt alein á pólinn og dregið þungan sleða á eftir mér. Ég upplifði heldur ekki mikla þreytu enda hátt uppi eftir leiðangurinn. Það var því sem ég hefði fengið blauta tusku í andlitið þegar ég mætti í fyrsta skipti til Mark einkaþjálfarans míns. Ég gat akkurat ekki neitt, ég átti að hlaupa, gera ýmsar æfingar sem kröfðust þess að hafa kraft og fleira. Skemmst er frá því að segja að þetta var vandræðalegt fyrir okkur bæði og ég átti mjög erfitt með að meðtaka þetta. Mark sýndi mér mikinn skilning og benti mér á að líklega væri líkminn kominn á stig ofþjálfunar en ég skammaðist mín bara.
Það var mikið að gera hjá mér á þessum tíma, fyrirlestrar, viðtöl og fleira og ég fann ekki fyrir mikilli þreytu en svona var þetta nú samt. Við ákváðum að byggja ferlið hægt og rólega upp enda var ég búin að ákveða að takast strax á við næstu áskorun. Ég hélt áfram að æfa en árangurinn lét á sér standa en smátt og smátt með þolinmæði og áræðni fór ég að ná kröftum aftur. Ég fékk svæsna flensu rétt fyrir brottför á Denali og hún setti svolítið strik í reikninginn og ég var því ekkert sérstaklega spræk fyrstu dagana á fjallinu en það jafnaði sig og ég átti góða daga ofar á fjallinu. Ég var orðin meðvitaðri um viðbrögð líkamans við svona mikilli áreynslu og hvað ég þyrfti að gera til þess að ná betra „recovery“ eftir Denali. Ég hvíldi mig vel fyrstu dagana eftir að ég kom niður af fjallinu og byrjaði að æfa tveim vikum eftir að ég kom niður. Í þetta skipti var ég mun betur á mig komin en eftir Suðurpólinn en ég fann samt sem áður fyrir þessari sömu þreytu í vöðvunum þó hún væri ekki jafn mikil. Mark þjálfarinn minn og strákarnir í Hreysti aðstoðuðu mig við að finna réttu fæðubóta blönduna til þess að ná líkamanum í rétt horf. Mikilvægt er að fylla vel á glutamín birgðirnar til þess að byggja upp vöðvana aftur eftir allt niðurbrotið og auk þess tek ég kreatín og prótein til þess að ná hámarksárangri. Ég var því mun fljótari að jafna mig í þetta skiptið og verkefnin eru að vísu ólík og úthaldið mislangt.
Þess utan að þá borða ég hreinan og hollan mat í flestum tilfellum, nema þegar ég er að safna forða fyrir kaldar og erfiðar aðstæður. Ég borða mikið af laxi og öðrum fiski, kjúkling og að sjálfsöðgu er ég mikill aðdáandi íslenska lambakjötsins en hef það til hátíðarbrigða. Á þessu heimili er mikið borðað af sushi, eiginlega nokkrum sinnum í viku. Ég er mikill nammigrís en borða það í hófi þar sem ávinningurinn af því er lítill sem enginn. Ég er lítið hrifin af boðum og bönnum og bestur árangur næst þegar maður nær að tileinka sér hollan lífsstíl til framtíðar.