Gildin mín

Einn stærsti þátturinn í undirbúningi fyrir leiðangurinn er að undirbúa sig andlega fyrir þau átök sem eru væntanleg. Í ferlinu þarf maður að fara langt inn á við og kynnast sjálfum sér vel. Mikilvægt er að vera ávallt hreinskilinn við sjálfan sig til að hámarka árangur vinnunnar.  Maður þarf að skoða vel hvar veikleikarnir og styrkleikarnir liggja og vinna út frá því.  Ég hef tekið mér góðan tíma til að íhuga þessi mál vel og vandlega og ákvað á endanum að tileinka mér gildi sem myndu vera mér að leiðarljósi í leiðangrinum.

Ég byrjaði á því að skoða vel undirbúningsferlið, hætturnar í leiðangrinum sem og hefðbundin dagsverk.  Leiðangur byrjar nefnilega á þeirri stundu sem maður tekur ákvörðunina og byrjar að vinna í málunum fyrir alvöru. Þetta er langt frá því að vera auðvelt ferli. Það þarf að yfirvinna margar hindranir til þess að láta drauminn rætast s.s. peningamál, tryggingarmál, mikila pappírsvinnu ásamt óteljandi öðrum þáttum.

Þegar ferðalagið sjálft hefst að þá þarf að takast á við mikið líkamlegt erfiði og vera undirbúinn að taka ákvarðanir í erfiðum aðstæðum. Leiðangur sem þessi er langt frá því að vera hættulaus þar sem veður geta verið válynd og yfir sprungusvæði að fara. Þá eru aðrar aðstæður sem geta verið erfiðar þó þær séu ekki alltaf beint hættulegar s.s. þegar ferðast þarf um í engu skyggni (whiteout).

Dagsverkin felast svo í því að koma upp tjaldbúðum, bræða snjó til neyslu, samskipti við ALE-búðirnar, gangan, rötun o.sfrv.

Eftir að hafa íhugað þessa þætti vel valdi ég gildin:

Jákvæðni:  stendur fyrir það að gefast ekki upp þó að á móti blási. Aldrei að missa móðinn heldur að nota hindranirnar til þess að efla mann í verki. Það er mjög árangursríkt að telja jafnan upp þá þætti sem eru manni í hag í aðstæðunum hverju sinni.  Jákvæðni er ekki síður mikilvæg á gleðistundum, hún er að vísu eðlislægari þá en muna bara að njóta þeirra út í ystu æsar.

Áræðni: stendur fyrir að koma hlutunum í verk. Ef áræðni er ekki fyrir hendi gerist lítið, það er enginn sem vinnur vinnuna fyrir mann. Þetta á við bæði í undirbúningsferlinu sem og á jökli.

Hugrekki: ég valdi þetta gildi af tvennum ástæðum. Annars vegar af því leið hugrekkis er leið hjartans (ég mæli með því að þið lesið greinina eftir Þorgrím) og ég er að fylgja hjartanu í þessum leiðangri. Hins vegar valdi ég gildið vegna þess að ég þarf oftar en ekki að stíga langt út fyrir þægindahringinn til þess að komast á leiðarenda.

Gildin ætla ég svo að skrifa með STÓRUM stöfum innan á tjalddúkinn hjá mér. Þannig hef ég þau fyrir augunum alltaf bæði þegar ég þarf virkilega á þeim að halda sem og til áminningar á góðum dögum.

 

 

This Post Has One Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *