IMG 7905

Púlsmælir í fjallgöngur

Margir þekkja til púlsmæla og þeirra heilsuúra sem hafa verið áberandi síðustu misseri. Ég er sjálf mikil áhugamanneskja um alla þá tölfræði sem fæst með því að nota slík mælitæki við þá líkamsrækt sem maður stundar hverju sinni.  Ég er á þriðja úrinu mínu frá því árið 2002 og finnst þetta í dag ómissandi æfingafélagi. Ég er nýbúin að uppfæra í fullkomnasta úrið sem ég hef átt um ævina og er það frá Garmin. Við Tommi eigum í dag eins úr og erum dugleg að bera saman tölurnar okkar og vega og meta árangurinn. Við fylgjumst vel með því hvað við erum búin að ganga, hlaupa og hjóla marga kílómetra, klífa marga hæðarmetra og hvort við erum að ná bætingu þegar við förum á æfingar. Mér finnst persónulega bæði gaman og hvetjandi að sjá tölur og safna þeim saman í Garmin connect forritinu.

Útivist og fjallgöngur hafa jákvæð áhrif á hjarta og æðakerfið líkt og önnur líkamsrækt. Eftir því sem við komumst í betra form þeim mun auðveldara á hjartað með að flytja súrefni til vöðvanna og getustigið okkar hækkar.  Ég hvet fólk til þess að fylgjast með púlsinum sínum og læra inn á sína líkamsstarfsemi. Það er líka mikilvægt að þekkja hvíldarpúlsinn sinn og kunna að reikna út hámarkspúls. Það gerir maður með því að að draga aldurinn sinn frá tölunni 220. Ég er 36 ára og minn hámarkspúls er því 220 – 36 = 184 BPM (beats per minute/slög á mínútu)

Ef að við erum í mjög löngum gönguferðum þar sem reynir virkilega á úthald og styrk þarf að halda púlsinum innan skynsamlegra marka og ekki vera fara mikið yfir 50 – 70% af hámarkspúls. Við viljum ekki fá mjólkursýru í vöðvana og minnka líkur á krömpum.  Fyrir þá sem eru í margra daga göngum er ágætt að vera ekki að fara mikið upp fyrir 60% þar sem að maður vill ná ákveðnu „recovery“ á milli daga.

Eftir því sem maður reynir meira á sig þeim mun lengri tíma þarf kroppurinn til að jafna sig. Ef maður er skynsamur og búinn að læra að þekkja sjálfan sig vel veit maður hvar mörkin sín liggja. Áskorarnir getur maður svo stækkað með því að teygja á þessum mörkum með réttri þjálfun.

Stundum tökum við fjallaæfingar þar sem við erum að vinna með spretti og þol. Í slíkum átökum vill maður vera að vinna á 70 – 85% af hámarkspúls. Þessar æfingar eru stuttar og maður vill keyra sig áfram til þess að njóta góðs af æfingunum í lengri ferðum. Það er ekki ráðlagt að taka slíkar æfingar 2 – 3 dögum fyrir stór verkefni þar sem maður kemst iðulega á mjólkursýruþröskuldinn og líkaminn þarf að ná að jafna sig eftir það.

Púlsmælar gefa manni ýmsar aðrar upplýsingar svo sem um hversu mörgum hitaeiningum hefur verið brennt við átökin, hversu mörg skref hafa verið gengin og þessi fullkomnari eru útbúin með gps tækjum sem gefa endalausa möguleika til dæmis að bera saman árangur á milli skipta sé farið sömu leið og ýmislegt fleira.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *