IMG 0515

Fórnir eða forgangsröðun ?

Meistaramánuður er að byrja ! Það er ekki seinna vænna en að skrá sig til leiks og lifa eins og meistari í heilan mánuð.  Reyndar ættu allir mánuðir að vera meistaramánuður því ef við temjum okkur heilbrigðan lífsstíl líður okkur einfaldlega betur.  En Meistaramánuður er frábært tæki til þess að koma hlutum í verk sem við höfum lengi hugsað um og hafa setið á hakanum.

Þegar við setjum okkur markmið verðum við eindaldlega einbeittari og við erum tilbúin til þess að leggja meira á okkur til þess að komast að lokatakmarkinu. Markmið eru stefnumótandi og hjálpa okkur að ná lengra.  Eins er mikilvægt að hafa í huga að ef markmiðin eru stór að þá er gott að brjóta þau niður í smærri einingar sem varða leiðina, þannig erum við alltaf með viðráðanleg markmið í augnsýn og getum fagnað í hvert einasta skipti sem við náum þeim. Það er einfaldlega þannig að ef við fögnum nógu mörgum smásigrum að þá fögnum við á endanum þeim stóra !

Ég er stundum spurð að því hvort ég hafi ekki  þurft að fórna ýmsu til þess að ná mínum markmiðum.  Jú vissulega en samt eiginlega ekki ! Þetta snýst nefnilega um forgangsröðun.  Þegar maður setur sér markmið verður maður að forgangsraða til þess að hámarka líkurnar á því að ná settu marki.  Ég held rútínu, stunda æfingar, afla mér þekkingar á viðfangsefnunum o.s.frv.  Tímastjórnun er líka gríðarlega mikilvæg.

Eitt af því mikilvægasta sem ég geri er að stunda heilbrigt líferni og það er í fyrsta sæti á mínum forgangslista.  Næringaríkur matur, ég reyki ekki og það er afskaplega lítið áfengi í mínu lífi. Ég væri ekki að segja satt ef ég segði að ég drykki alls ekki en hægt er að telja skiptin á fingrum annarar handar síðastliðin þrjú ár.

Áfengi hefur nefnilega gríðarlega mikil áhrif á árangur okkar og líðan. Líkaminn er tvo til þrjá daga að jafna sig eftir hvert skipti og við verðum þreyttari fyrir vikið og úthaldsminni. Áfengi hefur áhrif á árangur æfinga okkar þessa daga og við erum útsettari fyrir vöðvabólgu og ýmsum kvillum.

Við eigum það líka á hættu að verða pirraðri og stressaðri dagana á eftir og það hefur áhrif á afköst okkar í vinnu og í samskiptum við annað fólk.

Ef við skoðum dæmið út frá tölum og reiknum með að það taki okkur tvo daga að jafna okkur í hvert skipti og að við neytum áfengis að meðaltali tvisvar sinnum í mánuði að þá gerir þetta á ársgrundvelli:  48 daga þar sem við erum ekki fyllilega með sjálfum okkur  og við erum ekki að ná hámarksárangri á okkar sviði !

Það sama á við um aðra þæti s.s. óheilbrigt matarræði, reykingar, fjármál og fleira.  Í dag höfum við tækifæri til þess að byrja á að firka okkur í rétta átt. Ég lofa því að ef þið fylgið markmiðum ykkar eftir og horfið til baka eftir eitt ár, á þennan upphafsstað sem þið eruð á í dag að þá eigið þið ekki eftir að sjá á eftir þeim tíma og þeim hlutum sem þið forgangsraðið heldur eigið þið eftir að fagna sigrinum.

Aftur á móti verður sárara að hugsa til baka eftir eitt ára og segja við sjálfan sig… bara ef ég hefði nú forgangsraðað.

Gleðilegan meistaramánuð !

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *