Fjallabíó! Einstakt afrek á Latok í Karokorum fjallgarðinum.
Sumarið 2018 héldu þeir Aleš Česen, Luka Stražar og Tom Livingstone til Pakistan í Karakorum fjallgarðinn með það að markmiði að klífa Latok I. Það hefur reynst þrautin þyngri að klífa fjallið og í 40 ár reyndu yfir 30 leiðangrar við fjallið án árangurs. Fjallið varð frægt þegar; Jim Donini, Michael Kennedy, Jeff Lowe og George Lowe reyndu fyrst við það árið 1978. Þeir náðu ekki alla leið á toppinn þar sem veður og veikindi settu strik í reikninginn en leiðangurinn hafði þau áhrif að það varð eftirsóknarvert að reyna að klára það sem þeir byrjuðu á. Árið 1979 komst japanskur leiðangur á toppinn eftir suðurhlíðinni en norður hliðin var ennþá óklifin. Myndir frá bæði fyrsta leiðangri þeirra félaga 1978 og frá 2018 leiðangrinum er að finna í galleríinu hér að ofan.
Eins og áður kom fram reyndu margir leiðangrar við fjallið og meðal þeirra á meðal færustu fjallamana heimsins. Það þurfa margir hlutir að ganga upp og ekki síst veður og aðstæður. Ales, Luka og Tom urðu vitni að óhappi hjá rússneskum leiðangri á fjallinu og hafði það töluverð áhrif á þá en fjallað er um það í myndinni. Þeir félagar klifu 3/4 af norðurveggnum en hliðruðu svo inn á vesturvegginn og urðu annað teymið til þess að standa á toppnum, unnu stórkostlegt fjallaafrek sem þeir hlutu Piolet d’or gullöxina fyrir.
Leiðin er tæknileg, brött, erfið og krefst mikillar færni í fjallamennsku. Þeir félagar náðu einstökum árangri og ekki síst vegna liðsheildarinnar sem þeir hafa náð að skapa. Ales og Luka koma frá Slóveníu þar sem alpinismin á djúpar rætur og Tom kemur frá Bretlandi en hann er mjög iðinn við kolann.
Myndin hefur verið sýnd á fjalla og kvikmyndahátíðum en nú er komið að ykkur að njóta. Gjörið svo vel 🙂