Loksins í Punta Arenas
Ég lenti hér í Punta Arenas s.l. nótt eftir 32 klst ferðalag frá London. Ferðin var nokkuð strembin og full af ævintýrum og úrlausnarefnum þar sem ekki veitti af að hafa jákvæðnina að vopni. Þegar ég kom á Heathrow flugvöllinn fjórum klst fyrir brottför var ég ekki til í kerfinu hjá flugfélaginu þrátt fyrir að hafa verið búin að greiða miðann fyrir nokkrum vikum. Seint gekk að leysa úr málinu þar sem flugfélagið er ekki með skrifstofu á flugvellinum. En eftir að hafa verið í símanum í 75 mín og þar af 60 á “hold” fékk ég loksins miðann í hendurnar. Þegar ég var búin að skrá mig og farangurinn inn var komið “boarding” á skiltið og lítill tími til að athafna sig en allt þetta hafðist á endanum.
Þetta var fullorðins flugvél með frábærri þjónustu og góðri afþreyingu. Flugið var 12 klst og ég gat “sofið” stóran hluta af leiðinni. Ég stoppaði nokkrar klst í Sao Palo og hélt svo áfram til Santiago. Þar safnaði ég saman farangrinum mínum og árangurinn var fimm töskur af sex. Ein taskan hafði því ekki skilað sér alla leið og nú voru góð ráð dýr og alveg bannað að tapa gleðinni. Ég var reyndar orðin svöng og þreytt á þessum tímapunkti en eftir smá hressingu var ég komin á fullt skrið aftur. Tollurinn var mjög áhugasamur um farangurinn minn og var ekki alveg til í að hleypa mér í gegn með allan matinn og því þarf ég aðeins að versla hér í Punta.
Það gleður mig líka hvað margir eru að skrá sín Lífsspor – það er mér mikil hvatning og verður án efa mikil orkuinnspíting úti á ísnum.
æ greyin, þeir hafa fengið vatn í munninn, þessi tollaragrey