Hvert er þitt Lífsspor?
Stefán Hilmarsson verndari Lífs skrifaði kveðju til Vilborgar í dag á heimasíðu Lífs, www.gefdulif.is.
“Má til með að benda ykkur á hina mögnuðu Vilborgu Örnu Gissurardóttur, sem er nýlögð af stað í merkilegt ferðalag. Þetta er engin orlofsferð til Kanarí, heldur langur túr, spennandi og strangur suður eftir hnettinum. Lokaáfangastaður Vilborgar er sjálfur Suðurpóllinn, en yfir ísbreiðuna hyggst hún ganga með sleða í eftirdragi! Þetta er kerling í krapinu, sem vert er að fylgjast með.
En það er ekki síður vert að líta til þess að jafnhliða göngunni stendur Vilborg fyrir áheitasöfnun til stuðnings Styrktarfélaginu Líf. Það góða félag var stofnað fyrir nokkrum árum í þeim tilgangi að styrkja Kvennadeild Landspítalans, með því að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma.
Ég skora á ykkur að fygjast með Vilborgu og heita á hana, þannig að Líf, ekki síður en Vilborg, fái notið hvers fótmáls suður á pólinn.
Hér má kynnast Vilborgu og fylgjast með ferðum hennar: http://www.lifsspor.is/
Og hér er Líf styrktarfélag á Facebook. Endilega “lækið” það. http://www.facebook.com/pages/L%C3%ADf/153816111337198
Stefán Hilmarsson”
Ég vil einnig hvetja alla landsmenn til að hreyfa sig þessa 50 daga sem Vilborg verður á leiðinni, henni til stuðnings. Hreyfingin má vera hvað sem er: göngutúr, jóga, dans, hlaup, pallatími, hjól, fótbolti o.fl. o.fl. Því fleiri sem hreyfa sig henni til samlætis og sjálfum sér til góðs þeim mun léttari verða þungu sporin. Við höfum stofnað sérstakan hóp á Facebook og hægt verður að skrá afraksturs hvers dags á https://www.facebook.com/groups/lifsspor/
Skráðu þig í Facebook hópinn og settu inn á hverjum degi hver þín hreyfing var og ef þú getur, hversu langt þú fórst (þó ekki nauðsyn). Við munum svo senda Vilborgu upplýsingar um fjölda þeirra sem skrá hreyfinguna sína hér á hverjum degi og veitir það henni kraft til að halda áfram á Suðurpólinn. Vertu með og fáðu vini þína og fjölskyldu til að taka þátt í þessu með okkur.
Hugsum til hennar þegar við stígum okkar lífsspor og heitum líka á sporin hennar því það kemur öllum fjölskyldum í landinu til góða.
Hvert er þitt LÍFSSPOR? Taktu þátt og láttu þín spor telja!