Everest Base Camp & Island Peak.
Það er stund milli stríða hér í Nepal. Við komum í gær niður til Katmandu eftir ævintýralega ferð um Khumbudalinn, upp í Everest Base Camp og svo klifum við fjallið Island Peak. Þetta er nokkuð langur túr sem endar á toppadegi sem getur verið ansi krefjandi. Við þurftum tvisvar að fresta toppadegi vegna veðurs og framan af var ansi kalt í ferðinni. Eftir að hafa legið yfir veðurspám var loksins komið „GÓ“ á okkur og fengum við þá einn fallegasta dag sem ég hef upplifað á fjöllum. Heiðskýrt og aðeins hlýrra en dagana á undan. Minni snjór var í leiðinni en ég hef séð áður og því þurftum við að þræða skriðjökullinn og „headwall-ið“ var stallað og á kafla þurfti að klífa yfir klettabelti. Stuttur en snarbrattur hryggur liggur síðan að toppnum sem rétt rúmaði okkur öll. Þvílíkur dagur! Við vorum pínu lúin þegar við náðum í grunnbúðir um kvöldið en vel sátt við afrakstur dagsins. Þar sem við þurftum að fresta toppadeginum að þá urðum við að taka þyrlu hluta af baka leiðinni og vá hvað það var gaman.
Núna er ég stödd í höfuðborginni og á fullu að útrétta. Næstu hópur kemur á morgun og þá höldum við aftur upp í fjöllin.
Langaði aðeins að sýna ykkur hvaða búnað ég var með í ferðinni. Þetta er svosem ekki tæmandi en smá innsýn.
Þegar það er ekki svo kalt elska ég að vera í þessu kombó. Primaloft vesti og léttur hlaupabolur eru allgjör snilld til þess að halda góðum kjarna hita en samt vera næginlega léttur. Ég nota vesti mjög mikið bæði þegar það er heitt og kalt. Í hitanum finnst mér frábært að þurfa ekki að vera í heilli peysu og þegar það er kalt nota ég vesti gjarnan utan yfir peysur og innan undir skel til þess að halda góðum hita á öxlunum. Það hjálpar til að halda þeim slökum og maður er ekki jafn mikið að kryppa bakið. Mæli þá sérstaklega með vestum sem ná aðeins upp á hálsinn.
Ég algjörlega elska þennan létta dúnjakka. Hann er með 800 fyllingu sem er frábært eins er teygjanlegt efni á hliðunum og innan á ermunum sem hefur tvo frábæra kosti, annars vegar að þá andar hann vel og hins vegar verður hreyfanleikinn mikill og jakkinn heftir mann hvergi. Þetta var sú flík sem ég notaði mest í ferðinni. Buxurnar sem ég er í eru úr nýju línunni og ég er virkilega ánægð með þær og ekki skemmir lúkkið á þeim fyrir. Ullarvettlingarnir sem ég er í voru líka á höndunum upp á nánast hvern einasta dag.
Hér er ég í primaloft jakka sem ég notaði mjög mikið þegar veðrið var að leika okkur grátt. Það snjóaði á okkur og þá var vissara að vera í flík sem heldur einangrun þó það sé raki. Ég er mjög ánægð með hreyfanleikann í jakkanum, hettan er góð og á ermunum er storff sem nær vel niður og hægt að setja þumalinn í gegnum.
Ég er með Ospray bakpoka sem ég algjörlega elska. Nafnið á honum er Temprest og hann er 30 L. Margir frábærir fídusar á honum m.a. sérstakt kerfi til þess að halda göngustöfunum á meðan maður er ekki að nota þá. Vasarnir fyrir brúsana eru djípir og góðir og sérstakt hólf er aftan á pokanum sem maður getur sett allskonar dót í án þess að þurfa að stoppa og opna allan pokann.