Fyrsta aðlögunarferðin

Namaste og gleðilegt sumar 🙂 Síðustu dagar hér í town Base camp hafa verið góðir. Sólin hefur verið hátt á loftið og við stundað æfningarnar okkar af krafti. Í gær fórum við aftur upp í ísfallið og nú lengra en síðast. Magnað að fara þarna í gegn, það er gengið á snjóbrúm, stokkið yfir sprungur og farið á álstigum yfir þær risa stóru, eins er þetta nokkuð bratt á köflum með tilheyrandi brölti. Við erum auðvitað í línum og notum allan tiltækan öryggisbúnað. Þetta er stórkostlegt og ógnvekjandi í senn. Maður er ansi lítill í þessu umhverfi og farið er eftir leikreglum náttúrunar. Hópurinn minn er góður og klár á sínu, þess vegna getum við ferðast nokkuð hratt yfir. Á morgun er komið að tímamótum í leiðangrinum er við leggjum af stað í fyrstu aðlögunarferðina. Við byrjum á að ganga upp í fyrstu búðir, 5900m, og áætlað er að ferðalagið taki á bilinu 6-8 klst. Þar verðum við í tvær nætur til að aðlagast nýrri hæð og undirbúa okkur fyrir búðir tvö. Gangan þangað tekur 4-5 klst og þá munum við dvelja í 6400m í 5 daga. Um leið og maður er kominn yfir 6000 m fer verulega að reyna á andlega og líkamlega. Matarlystin minnkar og kroppurinn sömuleiðis undan álaginu. Við munum fara upp að Lhotse hlíðinni og kynnast henni áður en við tökumst á við hana í annari umferð. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni sem eitt af áföngunum við að klífa fjallið. Það eru enn um 4 vikur þar til við reynum við toppinn svo það er enn langt í land. Ég hitti Íslandsvininn og fjallahetjuna David Breashers við ísfallið í gær. Hann var ánægður með heimsónina og móttökurnar í Hörpunni í síðasta mánuði. Það er lítið um internet í efri hlíðum Everst en Tommi minn mun fylgjast með og fá fréttir sem hann flytur áfram. Kærar kveðjur, Vilborg Arna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *