Sigling um Scoresbysund á Grænlandi
Kynni af nýju landi
Þann 18. ágúst 2010lagði skonnortan Hildur frá Húsavík upp í leiðangur til austurstrandar Grænlands. Leiðangurs og skipstjóri var Heimir Harðarson og áhöfnin var að mestu skipuð starfsfólki Norðursiglingar. Förinni var heitið til Scoresbysunds sem mun vera lengsti fjörður í heimi og nær 350 km inn í landið.
Spenningurinn og eftirvæntingin hjá hópnum leyndi sér ekki þegar landfestar voru leystar og leiðangurinn hófst formlega. Þennan dag var hagstæður byr og Hildur sigldi því undir fullum seglum út Skjálfanda og áleiðis til Grænlands. Eftir tveggja sólarhringa siglingu sást loks til lands en á leiðinni hafði hópurinn notið fegurðar nokkura stórra borgarísjaka sem gáfu forsmekkinn af því sem koma skyldi.
Fyrsta stopp á nýju landi var í þorpinu Ittoqqortoormiit, nyrstu byggð á austur ströndinni og er ákaflega afskekkt en það eru 800 km í næstu byggð Tasilak. Samgöngur til svæðisins eru mjög takmarkaðar og þangað er ekki sjófært nema í nokkrar vikur á ári því hafið verður ísilagt. Þess utan er einungis hægt að notast við þyrlur til þess að komast til og frá þorpinu.
Í dag búa þar um 500 manns og flestir eru inúitar en saga þorpsins er á margan hátt merkileg því árið 1925 voru um 100 Grænlendingar fluttir frá Angmagssalik norður til Scoresbysunds vegna deilna við Norðmenn um Norðaustur Grænland. Talið var að menn gætu lifað þar af veiðum og upp frá því byggðist þorpið og Norðmenn náðu aldrei neinum völdum. Svæðið er harðbýlt og ýmsar hættur á sveimi, veður eru válynd yfir vetrartímann og óhætt er að segja að þarna búi miklir veiðimenn og sannkölluð náttúrubörn.
Þorpið hefur hefðbundið grænlenskt yfirbragð, húsin eru áberandi ýmist gul, rauð, græn eða blá og fyrir utan flest þeirra eru tjóðraðir grænlenskir sleða hundar. Það fer ekki fram hjá neinum þegar það er kominn kvöldmatartími hjá þeim því ýlfrið og gólið yfirgnæfir öll önnur hljóð. Ittoqqortoormiit stendur á klöppum og þar er ekki nokkurn jarðveg að finna, vegirnir hafa ekki verið heflaðir í háa herrans tíð og allar lagnir liggja ofan jarðar þar sem ekki er möguleiki að grafa þær niður.
Áhöfnin fékk góðar mótttökur frá heimamönnum og ekki síst ungu kynslóðinni sem er ákaflega forvitin um þá gesti sem ber að garði. Jafnan heilsa þau og bíða með eftirvæntingu að fá kveðju til baka. Þau eru lífleg og leika sér úti við af miklum krafti og enginn er að spá í því hvort það sé kominn háttatími þó það sé langt liðið á kvöldið þar sem nóttin er enn björt. Áhöfnin þiggur góð ráð frá heimamönnum áður en lagt er af stað í siglinguna inn fjörðinn enda er ævintýrið rétt að byrja. Þá var áhöfninni fært læri af sauðnauti að gjöf sem grillað var í kvöldmatinn. Kjötið bragðaðist ljómandi vel og vakti mikla lukku að fá mat úr héraði.
Áleiðis inn í Scoresbysund
Hluti af áhöfninni flaug til Grænlands og kom um borð á Constable Pynt og eftir að áhöfnin var full skipuð var haldið áfram áleiðis inn fjörðinn. Alls voru 19 manns um borð af fimm þjóðernum og ekki leið á löngu þar til áhöfnin var orðin eins og ein stór fjölskylda. Yngsti áhafnarmeðlimurinn var 15 ára og sá elsti rétt um áttrætt.
Unnið var á fjögurra klukkustunda vöktum í senn og allir áhafnameðlimir höfðu hlutverk í ferðinni. Meðan á siglingunni stóð var gríðarlega mikilvægt að hafa trausta menn á ísvakt en þarna þarf að gæta ítrustu varúðar í nálægð við jakana. Einungis toppurinn á ísjakanum stendur upp úr og er sýnilegur með berum augum.
Í Scoresbysundi er gríðarlega mikil og stór eyja sem kallast Milne Land og er rétt um 3900 km2 að stærð en siglingaleiðin lá umhverfis hana. Ákveðið var að sigla fyrst suður með eyjunni og fyrsta nætur stoppið var við litla eyju, Danmarks Ö, í fallegri náttúrulegri höfn sem nefnist Hekla Havn. Þegar áhöfnin fór á fætur í bítið daginn eftir áttu menn varla til orð til þess að lýsa þeirri náttúrufegurð sem fyrir augun bar og kyrrðin var algjör. Margir borðuðu morgunmatinn sinn hljóðir og horfðu út á hafið og til fjalla. Þarna mátti sjá stærðarinnar skriðjökla sem sjá sjónum fyrir ísjökum af öllum stærðum og gerðum. Að máltíðinni lokinni var hópurinn ferjaður í land til þess að skoða náttúruna betur.
Heimamenn lögðu mikla áherslu á að fara aldrei í land nema vel vopnuð og voru því tveir rifflar með í för ef ske kynni að áhöfnin myndi rekast á sjálfan konung norðurheimskautsins, hvítabjörninn. Ekki varð sú raunin þrátt fyrir heita og einlæga von nokkurra áhafnarmeðlima. Granít er ríkjandi bergtegund á svæðinu og undirlagið var vægast sagt grjóthart ólíkt berginu sem við þekkjum frá Íslandi. Ekki var mikill gróður á svæðinu en jafni var þó áberandi ásamt þjóðarblómi Grænlendinga eyrarrósinni og einstaka berjalyng þó lítið færi fyrir safaríkum berjum. Þarna hitti hópuinn nokkra frækna Ástrala sem voru í tveggja vikna klifurleiðangri um svæðið. Þegar áhöfnin hafði lokið náttúruskoðun í landi var mál að halda ferðinni áfram.
Stórbrotin náttúra og nýjar upplifanir
Nú lá leiðin inn Fönfjörð sem kenndur er við veðurfyrirbrigðið fönvinda eða hnúkaþey. Enginn var svikinn af siglingunni þann daginn. Landslangið einkenndist af ísjökum og fallegum fjöllum með hvítum jökulhettum og á einstaka stað læddust skriðjöklar niður í miðjar hlíðar. Veðrið var stillt og nokkuð hlýtt miðað við að vera stödd á 70. breiddargráðu, blái liturinn áberandi á himni og einstaka ský á stangli.
Við enda fjarðarins var stutt stopp við Ankervig en þar hitti áhöfnin hóp af bæði vísindamönnum sem voru að rannsaka náhvali og hinsvegar inúitum sem voru við veiðar. Fólkið hafðist við í tjöldum og þegar áhöfnina bar að garði voru þeir að útbúa sauðnauta-steinasteik sem vakti mikla athygli hjá matmönnum hópsins. Svæðið í kring var nokkuð gróið og fréttir bárust af nokkrum sauðnautum á svæðinu en því miður of langt í burtu til þess að elta þau uppi að sinni. Eftir stutt stopp var haldið umborð í Hildi þar sem kveikt var upp í grillinu og áhöfnin átti saman magnaða kvöldstund undir roðaglóð á himni á lygnum sjó með snæhvita jakana í bakgrunni.
Ákveðið var að halda snemma af stað næsta dag þar sem löng siglingaleið var fyrir höndum, klukkan þrjú var orðið bjart og tími til að hífa upp ankerin. Nú var siglt til norðausturs um Rödefjord. Að firðinum liggja einir þrír minni firðir og alls sex skriðjöklar mata svæðið af ísjökum, slíkir jakar eru ýmist kallaðir borgarísjakar eða fjalljakar. Þarna voru þeir í þúsunda tali hver öðrum stórfenglegri. Ólíkir að stærð og lögun mynda þeir stórkostleg listaverk sem er samspil íss og sjávar. Sumir jakarnir eru orðnir rennisléttir og hafa því snúið sér og sjórinn sorfið og mótað jakana frá öllum hliðum aðrir eru hrikalegri með úfinn topp og hafa þá nýlega brotnað frá jöklinum, blindjakar eru litlir jakar sem mara rétt á yfirborðinu og oft orðnir alveg glærir að lit. En það sem vakti mikla aðdáun og athygli margra voru ákaflega fallegar bláar klakarendur í sumum jökunum sem minntu helst á ískristala þvert í gegnum jakana, en þær myndast þegar fersk vatn fyllir upp í sprungu og frýs svo hratt að engar loftbólur komast að.
Hópurinn hafði ekki verið lengi á siglingu þegar miklir skruðningar byrjuðu og áhafnarmeðlimir skimuðu í kringum sig fullir afathygli og sáu þá hvar gríðarstórt stykki hrundi úr einum stærarðinnar ísjaka. Nokkur tonn af ís fóru í sjóinn og flóðalda myndaðist, menn voru enn með andann á lofti þegar aðrir eins skruðningar byrjuðu nú frá hinum endanum á jakanum og annað eins magn af ís fór í sjóinn og önnur flóðalda tók upp takt þeirrar fyrri. Þetta var mikil og sterk upplifun en náttúran var rétt að byrja að leika listir sínar þann daginn.
Þegar komið var að nyrsta hluta Rödefjarðar var stefnan tekin til austurs og siglt í gegnum Öfjörð sem að öðrum fjörðum á svæðinu ólöstuðum er sá fegursti. Þarna rís þverhnípt bergið allt að 2000 metra upp frá sjónum og ekki að ástæðulausu sem fjallgarðurinn kallast Storhamrene, tilkomumesti tindurinn heitir Grundvigskirken og skagar oddhvass og þverhníptur upp í himininn. Þarna er dýpið einnig mikið og ríflega 200 metrar upp við klettana.
Þarna voru seglin hífð upp og jók það enn á upplifunina. Það var ekki fyrr búið að ganga frá síðasta reipinu þegar drunurnar byrja að nýju og nú af meiri krafti en áður. Þarna var gríðarlega stór borgarísjaki að brotna í tvennt. Hávaðinn yfirgnæfði aðdáunaróp áhafnarinnar sem fylgist dolfallin með. Eftir að ísinn var allur kominn í hafið byrjaði jakinn að vagga, fyrst rólega líkt og hann væri að bjóða upp í dans og svo sporðreistist hann og skellur af fullum kraftir aftur á sjónum án þess að velta alla leið. Jakinn sendi frá sér væna flóðbylgju sem fullkomnaði þennan gjörning náttúrunnar. Upplifunin var engu lík og á seint eftir að líða mönnum úr minni.
Stuttu seinna var Hildur komin á áfangastað við Bjarnareyjar sem eru jafnframt staðsettar við nyrsta hluta Milne Land, stóru eyjunnar sem siglt var í kringum. Þar var góð náttúruleg höfn sem nefnist Jyttes havn og eftir að ankerum hafði verið kastað var tekið til við að grilla. Líkt og áður voru máltíðirnar ljúffengar og glöddu svanga maga í hvívetna.
Veðrið var bæði milt og gott og allir uppveðraðir eftir upplifanir dagsins. Sjórinn var orðinn freistandi kostur fyrir marga og smám saman byrjuðu menn að tína af sér spjarirnar og stukku í sjóinn. Sjósundið var hressandi og möguleiki var að stökkva af skonnortunni frá ýmsum stöðum og sumir fengu einfaldlega ekki nóg. Mikið var ærslast og gleðin var allsráðandi. Sjósund norðan við 71°breiddargráðu var staðreynd og skráð í afreksbækurnar.
Eftir sundsprettinn fóru þeir sem vildu í land og gengu um eyjuna undir fullu tunglsljósi. Dagurinn var fullkominn og að öðrum dögum ferðarinnar ólöstuðum sá besti. Einn af þeim dögum sem eiga aldrei eftir að gleymast.
Haldið heim á leið
Ákveðið var að staldra örlítið við daginn eftir, þann fjórða í sjálfu sundinu og þann sjöunda frá því lagt var af stað frá Íslandi. Menn sátu uppi á dekki og nutu félagsskapar hvors annars, lásu í bók eða horfðu á útsýnið. Heimir leiðangursstjóri tók upp köfunarbúnaðinn og kannaði undirheima sjávarins. Lítið lífríki var undir yfirborðinu líkt og annarsstaðar á svæðinu. Lítið eraf fiski í sjónum en þó finnst bleikja á nokkrum stöðum en var öll farin þegar þessi leiðangur var á ferð. Þrátt fyrir ítrekaðar veiðitilraunir varð ekki vart við neinn fisk. Þarna er að finna snæhéra, seli, náhvali, rostunga, sauðnaut og ísbirni. En áhafnarmeðlimir urðu bæði varir við seli og snæhéra þennan dag.
Senn var lagt upp í síðasta siglingarlegginn inn í sundinu. Síðasti viðkomustaðurinn og jafnframt síðasta landtakan var við Sydkap sem er mikill veiðistaður og vel sóttur af heimamönnum. Þar eru einnig nokkur hús sem eru bæði nýtt afveiðimönnum og ferðamönnum annars vegar í kayakferðum á sumrin og hinsvegar í hundasleðaferðum yfir vetrartímann. Að þessari viðkomu lokinni var haldið áleiðis til þorpsins þar sem leiðir skyldu en nokkrir áhafnarmeðlimir héldu til baka með flugi. Nú var mál að kveðja þennan ævintýraheim Grænlands og sigla heim til Íslands. Þessir dagar höfðu verið viðburðaríkir og ný ævintýri handan við hvert horn. Á heimleiðinni rákust menn á tvo búrhvali sem vöktu mikla lukku ásamt því að áhöfnin sigldi fram hjá Kolbeinsey eða því litla sem eftir er af henni.
Áhöfnin var reynslunni ríkari þegar Hildur sigldi inn í Húsavíkurhöfn 10 dögum síðar og fékk hlýjar móttökur frá vinum og vandamönnum sem fá án efa að njóta þess þegar ástvinir rifja upp magnaðar minningar úr þessari ógleymanlegu ferð.