Gleðilegt ár !
Það er skrýtin tilfinning að árið skuli senn vera á enda. Einhvern veginn langar mig ekki til þess að það sé búið. Þetta ár hefur verið gríðarlega viðburðarríkt og fullt af hamingju ríkum áfangasigrum. Þetta hefur líka að morgu leiti verið gríðarlega krefjandi þó velgengnin hafi verið í fyrirrúmi. Það er nefnilega þannig að maður fær ekkert upp í hendurnar og maður þarf að vinna fyrir sigrunum. Það að þrá eitthvað svona heitt fær mann til þess að standa á brúninni og oft má ekki miklu muna að maður falli fram af, skynsemin verður alltaf að hafa yfirhöndina og maður á að hlusta á sína innri rödd og fylgja innsæinu.
Vinnan í kringum leiðangrana er mikil – það þarf að undirbúa hvert einasta smáatriði og bara það eitt að komast af stað í hverja ferð er sigur útaf fyrir sig. Ég er þakklát fyrir allan þann stuðning sem ég hef fengið á árinu. Hann hefur verið mér óendanlegt hvatning til þess að standa mig og að ná markmiðunum mínum. Ég er stolt af því að eiga svona frábæra samstarfsaðila sem styðja við bakið á mér með ýmsu móti s.s fjármagni, búnaði og fleiru. Án þeirra kæmist ég ekki langt.
Það sem gefur mér einnig hvatningu og yljar mér um hjartaræturnar er þegar fólk segir mér frá sínum markmiðum og hvernig það ætlar sér að ná þeim eða hefur nú þegar gert það.
Nú er nýtt ár framundan og því er viðeigandi að velta fyrir sér hvað maður vill fá út úr árinu. Hvaða markmiðum vill maður ná? Þau þurfa ekki endilega að vera risavaxin eða fyrirferða mikil. En að setja sér markmið og gera áætlun um hvernig maður ætlar að ná því hjálpar manni að fókusera á viðfangsefnið.
Fyrir utan þá tinda sem ég hef á markmiðaskránni hjá mér langar mig til þess að hitta vini, ættingja og fólkið á bak við mig oftar.
Takk og aftur takk fyrir allan stuðninginn góða fólk.
Gleðiilegt ár !
Gleðilegt ár Vippa, gangi þér og ferðafélögunum vel á Aconcagua