Loka undirbúningur
Lífið í Punta hefur verið mjög gott. Ég hef verið að frá morgni til kvölds alla daga við að undirbúa og kaupa síðustu hlutina sem upp á vantar og því ekki gefist tími til að skoða sig mikið um. Ég fór þó út í gærkvöldi með myndavélina og smellti af nokkur myndum.
Í morgun fór ég svo á fund með fulltrúum ALE þar ræddum við um útbúnaðinn minn, samskiptaform á ísnum og ýmislegt sem tengist leiðangrinum. Mér leið vel eftir fundinn og ég er mjög vel stemmd fyrir framhaldinu. Ég næ að vera afslöppuð en reyni jafnframt að vera raunsæ á framhaldið og það er alveg ljóst að það verða bæði góðir og erfiðir dagar á ísnum. Fyrstu dagarnir verða þó sennilega með þeim erfiðari á meðan ég er að venjast umhverfi og aðstæðum. Ég mun líka takast á við erfiðleikana þegar þeir koma upp en ekki vera að búast við þeim í sífellu. Það er erfitt að lýsa tilhlökkuninni en ég iða í skinninu og hjartað slær nokkur auka slög. Það er líka mjög gaman að vera hérna á hótelinu. Hingað hafa komið ótal leiðangrar í gegnum tíðina og myndir frá sumum þeirra hér upp á vegg. Starfsfólkið er líka mjög liðlegt og einhvern veginn óhjákvæmilegt að þykja annað en vænt um þennan stað. Hér eru líka margir frábærir starfsmenn ALE bæði leiðsögumenn, starfsmenn búða og eigendur. Ég hef því virkilega notið þess að fræðast um svæðið og spyrja menn spjörunum úr. Þjónustan hefur verið framúrskarandi bæði varðandi upplýsingagjöf og viðmót. Hér slá mörg ævintýrahjörtu í takt.
Í dag fór ég svo og kyssti tána á Magellan en sagan segir að ef maður geri það eigi maður afturkvæmt til Punta. Það er líka gaman að segja frá því að fyrsta seglskútan sem ég vann á heitir einmitt Magellan. Svona tengjast hlutirnir oft í skemmtilega.
Í fyrramálið verður búnaðurinn minn sóttur og farið með hann í flugvélina. Það eina sem ég hef í höndunum eftir að er gallinn minn sem ég verð í á leiðinni yfir hafið. Svo verður flugið vonandi á sunnudaginn – við krossum putta. Í fyrra þurfti í eitt skipti að bíða í tvær vikur eftir aðstæðum, vonandi tekur það ekki svo langan tíma núna.
Gangi þér vel frænka, mitt mottó er að búast ætíð við hinu besta en reyna að vera manneskja til að taka því sem að kemur þegar það kemur.
Nokkurnveginn það sama og þú segir
Mér finnst þú algjörlega mögnuð, gangi þér óskaplega vel, verður gaman að fylgjast með þér.
ansi er þessi tá vel við vöxt 😉
Gangi þér, það verður gaman að fylgjast með.
Rosalega er gaman að vita að við eigum svona öflugt fólk eins og þig hér á fallega klakanum okkar.
Gangi þér vel Vilborg – þú ert heldur betur fyrirmynd og veitir okkur fjallageitunum á Íslandi mikinn innblátur… Það verður gaman að fylgjast með þér, hlakka til að sjá næstu blogg frá þér og sjá hvernig gengur. Vonandi verða fyrstu dagarnir þér ekki of harðir veðurfarslega séð. Kv. frá einni óþekktri sem dáist af framtakinu!
Kæra Vilborg, ef einhver getur náð þessu markmiði þá er það þú! Þú ert okkur öllum heima á Íslandi hvatning um að ekkert er ómögulegt. Njóttu hvers einasta augnabliks og gangi þér sem allra allra best.
Þú ert ótrúlega hugrökk og flott, gangi þér vel á ísnum !