Hæsti tindur Evrópu, Elbrus !

Hæhó !

Loksins er komið að næsta tindi og þá þeim hæsta í Evrópu, Elbrus.  Fjallið er fallegt og er staðsett mjög sunnarlega í Rússlandi, svo sunnarlega að það er á mörkum Evrópu og Asíu. Elbrus tilheyrir Kákasus fjallgarðinum og hefur tvo tinda sem kenndir eru við áttirnar austur og vestur. Við stefnum að sjálfsögðu á þann hærri og vestari sem mælist 5642 mys.

Að þessu sinni er ég ekki ein á ferð heldur eru sex fræknir fjallagarpar á leiðnni með mér á fjallið og það er einkar ánægjulegt. Leiðangursmenn eru: Ármann, Bjarni, Elín, Elísabet, Hugrún og Kristín og allir hafa talsverða reynslu af útivist og fjallamennsku. Þetta er sterkt og gott teymi sem hér er saman komið og með góðan húmor í þokkabót.

Við lentum í Mineralny Vody í gær og má segja að ferðin hingað í Baskadalinn hafi verið mikið ævintýri. Þegar við komum á flugvöllinn fengum við góðar móttökur hjá Konstantín, staðarleiðsögumanni og samstarfsmanni Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, með honum var bílstjóri sem sá um aksturinn hingað.  Margt var að sjá á leiðinni en það sem stendur helst upp úr er að hér eru kýrnar út um alla vegi og hreyfa sig ekki spönn frá rassi þó bílarnir þjóti hjá, því minnti aksturslagði oft á tíðum á belju-stórsvig á öðru hundraðinu. Við komum hingað heil á höldnu um fimm leitið í gær og allir voru hlídinni fegnri enda tók ferðalagið frá Íslandi eina 33 klst.

Í dag hófum við svo hæðaraðlögun fyrir sjálfan tindinn. Við gengum inn Iryk dalinn sem er hér skammt frá. Veðrið er gott og lítið mál að vera á stuttbuxum og bol ef þannig lá á mönnum. Margt bar fyrir augun í dag s.s. fjöldinna allur af kúm og kálfum, falleg blóm og jurtir, sveitakofi þar sem sem stundaður er búskapur yfir sumarmánuðina, asni sem vakti mikla lukku og rúsínan í pylsuendanum var að sjá sjálft Elbrus fjall í skýahulunni við enda dalsins. Við gengum 18,5 km á 7,5 klst og hækkuðum okkur um 700 m. Á morgun heldur svo hæðaraðlögunin áfram en þá höldum við á Cheget fjall og náum 3050 m hæð. Á hinn daginn verður haldið á fjallið þar sem hæðaraðlögun heldur áfram og að lokum verður gerð atlaga við tindinn.

Við flytjum frekari fréttir næstu daga og sendum góðar kveðjur heim !

-Vilborg

This Post Has 2 Comments

  1. Frábærar fréttir og skemmtileg lýsing á ferðalaginu.
    Gangi ykkur vel með næstu áfanga og aðlögunina og megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og vernda.
    Bestu kveðjur, mamma.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *