Elbrus – aðlögunar ganga á Cheget fjall

Hæhó,

Héðan er allt gott að frétta. Við áttum magnaðan dag í hlíðum Cheget fjalls í kjör aðstæðum. Það var bjart yfir og nokkuð heitt á göngunni. Við gengum á slóða sem var brattur á köflum en þæginlegur til göngu og inn á milli tókum við nestis og ljósmyndastopp enda bíður umhverfið upp á endalausar myndatökur.  Cheget fjall er skíðasvæði á veturnar og því eðli málsins samkvæmt skíðalyftur langt upp í hlíðar. Eftir því sem ofar dró urðum við því vör við aðra ferðamenn sem fara upp með lyftum til þess að njóta útsýnisins.

CaptureVið náðum upp á áfangastað okkar á þremur tímum en Konstantín staðarleiðsögumaðurinn okkar hafði gert ráð fyrir fjórum svo við vorum öll bara nokkuð ánægð með árangurinn. Þar sem þetta er hæðaraðlögunarganga var farið mjög hægt yfir til þess að líkaminn geti aðlagast aðstæðum sem best og öllum leiðangursmönnum leið vel á göngunni í dag. Þegar upp var komið fengum við okkur nestisbita og önduðum að okkur loftinu og nutum lífsins. Niðurleiðin var öllu auðveldari þar sem við fengum nú að njóta skíðalyftunnar góðu.  Lyfturnar eru í retro stíl enda sömu lyftur búnar að vera í gangi síðan 1963. Til þess að hressa upp á útlitið er búið að mála stólana í öllum regnbogans litum. Ótrúlegt útsýni var úr lyftunni og niðurferðin var því mjög ánægjuleg.

Þegar í þorpið var komið fengum við hádegismat á veitingastað og röltum svo um og nutum veðurblíðunnar. Við komum við á litlum markaði þar sem handverk og matur úr héraði er til sölu. Þar gátum við líka fengið góð kort sem flestir fjárfestu í.

Þegar heim á hótel var komið var búnaðarfundur og nú eru allir leiðangursmenn í óðaönn að gera sig klára fyrir morgundaginn er við höldum á fjallið þar sem við ætlum að dvelja næstu daga.
Við höldum áfram að senda fréttir heim og hér er möguleiki á að fylgjast með ferðum okkar;  http://public.pieps.net/Share/Track/08D5060D5ER458XC

Góðar kveðjur !

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *