Einn frægasti fjallgöngugarpur heims með fyrirlestur !
Ed Viesturs, einn fræknasti fjallgöngugarpur sögunnar, mun halda fyrirlestur á Háfjallakvöldi í Háskólabíói nk. miðvikudagkvöld kl. 20. Háfjallakvöld er í boði Vina Vatnajökuls, 66°Norður og Félags íslenskra fjallalækna.
Ed er lifandi goðsögn meðal fjallgöngumanna. Hann hefur klifið Everest 7 sinnum og kom mikið við sögu í hinni frægu IMAX-Everest kvikmynd. Auk þess hefur hann afrekað að komast 21 sinni yfir 8000 m og hefur klifið Mr. Rainer yfir 200 sinnum.
Í fyrirlestri sínum mun hann segja frá leiðangri sínum, Endeavor 8000, þar sem hann kleif alla 14 hæstu tinda veraldar (allir yfir 8000 m), fyrstur Bandaríkjamanna og einn öfárra sem náð hafa þeim áfanga án viðbótarsúrefnis. Leiðangurinn vakti heimsathygli og það tók hann 18 ár að ná að klífa alla 14 tindana. Einna frækilegastar þóttu göngur hans á tvö hættulegastu fjöll heims; K2 og Annapurna, en á því síðarnefnda hefur þriðji hver sem reynir við fjallið látið lífið. Ed mun segja frá þeim afrekum í fyrirlestri sínum og fleiri fjallgöngum.
Ed er frábær fyrirlesari og hefur ofsinnis prýtt síður National Geographic. Hann er einnig vinsæll viðmælandi í bandarískum spjallþáttum og hefur skrifað fjölda bóka, m.a. metsölubókina K2: Life and Death on the World’s Most Dangerous Mountain.