Ráð við sárum vöðvum
Það ættu allir að hugsa vel um vöðvana sína sama hvort þeir hreyfa sig eða ekki. Mínir vöðvar fá reglulega nudd eftir gönguferðir og ósjaldan þegar ég er að horfa á þætti að þá gríp ég rúllu og tríta vöðvana smáveigis.
Það vill oft verða þannig að menn gleyma að teygja eftir göngur og þá stífnar maður upp og margir kannast við óþægindin sem fylgja því. Það geta myndast triggerpunktar en þeir geta verið ansi sárir. Mér líður almennt betur þegar ég er búin að losa um spennuna í þessum aumu punktum og vöðvunum þegar þeir spennast upp. Það er auðvitað mjög vont á meðan en algjörlega þess virði.
Önnur ástæða fyir því að teygja vel er að vinna á móti því að það myndist ósamræmi í styrk og stærð vöðva en það getur kallað á meiðsli og önnur óþægindi. Það má heldur ekki gleyma öxlum og baki því að bakpokinn getur tekið í ef hann situr ekki rétt. Annað sem ég hef rekið mig endurtekið á í gegnum tíðina að rigning og kuldi fá mann til þess að herpa axlirnar og þá fær maður aldeilis að finna fyrir því í kjölfarið. Mín lausn við þessu er að vera í vesti og setja buff um hálsinn til þess að halda góðum hita á svæðinu og þá er maður síður að kreppa axlirnar upp að eyrum og nær að slaka betur á.
Ég hef í gegnum tíðina safnað að mér nokkrum hlutum sem mér finnast ómissandi þegar kemur að því að losa um spennu í vöðvum og ég mæli hiklaust með því að nota olíu á kroppinn til þess að hjálpa til við að liðka og mýkja upp. Verslunin Hreysti hefur stutt við bakið á mér í gegnum tíðina þegar kemur að bætiefnum og rúllurnar fékk ég einnig hjá þeim en olíurnar fást í apótekum.
- Arnicu olían hitar vöðvana upp og örvar blóðstreymið. Þetta er uppáhalds olían mín og ég nota hana oftast.
- Magnisíum olía flýtir fyrir endurheimt í vöðvum en athugið að manni getur klæjað ögn undan henni í fyrstu skiptin.
- Nuddrúllan er algjört æði til þess að vinna á triggerpunktum í stórum vöðvum. Það getur verið ögn sárt að rúlla á henni til að byrja með. Þessi er í stífari kantinum og með hrufum þannig að hún nær dýpra inn í vöðvana. Á tptherapy.com/watch er hægt að horfa á kennslumyndbönd um það hvernig er best að bera sig að.
- Nuddkeflið fylgir mér oft í ferðum ásamt boltanum en það er skothelt kombó. Mér finnst gott að geta geta beitt mismunandi þrýsting og keflið er mjög meðfærilegt í ferðalögum. Uppáhaldið mitt er að nota það til þess að nudda aftan á kálfunum.
- Nuddboltinn er frábær til þess að ná djúpt á staði sem eru ekki aðgengilegir fyrir keflið eða rúlluna. Ég nota hann mest til þess að losa um spennu í rassvöðvunum og á milli axlanna.
- Píramýdinn er alveg glerharður og mér finnst best að nota hann með Arnicu olíunni til þess að ná extra djúpt inn í vöðvana og þá nota ég jafnan tvo hnúða saman. Þennan nota ég mikið til þess að nudda meðfram hryggnum og þá þarf að sjálfsögðu að fá smá aðstoð við það.