Beðið eftir aðstæðum

Til þess að fljúga til Suðurskautsins þurfa aðstæður ávallt að vera góðar hvað varðar veður- og lendingarskilyrði, því þarf oft að bíða í nokkra daga eftir réttu skilyrðunum.  Flugið mitt var á áætlun í dag en ekki reyndist unnt að leggja í ´ann og því verður reynt aftur á morgun.  Snemma í fyrramálið munum við fara út á völl í von um að geta farið í loftið en það gæti allt eins farið á þann veg  að við förum heim á hótel aftur. Þolinmæði er því góður kostur bæði í aðdraganda ferðarinnar sem og úti á ísnum og hafa ber í huga að margir hafa þurft að bíða í nokkra daga eftir því að komast í loftið.

Þegar ég verð komin á ísinn mun ég vera einn til tvo daga í búðum ALE á Union Glacier áður en ég flýg á upphafsstað göngunnar. Í huganum er ég búin að brjóta leiðina niður í nokkra smærri áfanga og hugsa um einn dag í einu. Ég vil fyrst og fremst njóta þessarar ferðar og vanda mig í öllum verkum. Þá er líka mjög mikilvægt að geta látið sér líða vel í öllum aðstæðum hvort sem það er heiðskýrt lítill vindur eða lítið skyggni og rok.  Ég elska að vera á skíðunum og ég hlakka til þeirra stunda þegar maður skíðar áfram í leiðslu og lifir algjörlega í núinu þar sem staður og stund eru í aðalhlutverki.

Fókusinn er skýr og mér líður vel. Ég er líka mjög þakklát fyrir allan stuðninginn og kveðjurnar sem mér hafa borist. Þið verðið með mér í huganum alla leiðina á Pólinn og ég hlakka til samfylgdarinnar. Ég hvet ykkur til að taka þátt í hreyfiátakinu og að skrá ykkur í hópinn á FB:   http://www.facebook.com/groups/lifsspor/

Hreyfum okkur saman og njótum lífsins !

This Post Has 2 Comments

  1. Sæl dugnaðarforkur!
    Ég hefi ákveðið að fylgjast með göngu þinni á suðurskautinu,og,mun senda þér góða strauma og fyrirbænir.
    Ég satt best segja dáist að uppátækinu.
    “Vilji er allt sem þarf”
    Kveðja ,Einar St.

Leave a Reply to Einar Stefán Cancel comment reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *