IMG 6981 (1)
IMG 6981 (1) IMG 3819 IMG 3825 IMG 3829 IMG 3831 IMG 3836 IMG 3841

Undirbúningur fyrir bakpokaferðalag.

Ég tek aldrei meira af fötum með mér en ég þarf. Algjör óþarfi að vera að þyngja pokann, en þá þarf maður líka að þekkja sjálfan sig vel og hvaða þarfir maður hefur. Þetta dugar mér í níu daga.

Skel: Tek þá léttustu sem ég á til. Þessi heitir Snæfell og er fullkomin í svona ferðir, bæði jakka og buxur.

Primaloft úlpa: Nauðsynlegt að vera með eitthvað til þess að hlýja sér ef það er kalt í pásum eða á kvöldin þegar búið er að setja upp camp.

Göngubuxur: Ég vel léttari gerð af buxum og nota ekki fóðraðar yfir sumartímann, mæli t.d. með Vatnajökull softshell.

Flíspeysa: Þessi heitir Laki og er ekki eins og venjulegar flíspeysur. Þetta var ást við fyrstu sýn og ég hef notað hana í öllum ferðum síðan í vor. Peysan er með alpha efni á core svæðinu sem gerir hana að einni bestu peysu sem ég hef prófað.

Innsta lag: Ég vel alltaf ull umfram annað. Bolurinn sem ég valdi er líka með hettu sem er mjög kósý á kvöldin. Ég tók jafnframt með mér léttari bol til þess að nota á hlýrri dögum og er eins konar hlaupabolur. Virkaði mjög vel.

Sokkar: Á sumrin vel ég léttari sokka svo ég sé ekki að stikna í skónum. Ég á það líka til að fá beinhimnubólgu svo ég er gjarnan með compression sokka en þeir virka gríðarlega vel við þeim kvilla. Svo er best í heimi að vera með sérstaka og þykka tjaldsokka – þá á maður alltaf eitthvað hlýtt og þurrt að fara í eftir langan dag.

Það er lykilatriði að hafa bakpokann sinn vel skipulagðan. ég pakka alltaf í svona vatnshelda “sea to summit” poka. Hver poki inniheldur ákveðinn flokk af búnaði og þessi er með hluti sem nýtast til þess að halda á sér hita.

Vettlingar: oftast nær er nóg að fara í fingravettlinga á sumrin sé veðrið ekki þeim mun kaldara eða blautara. Ég vel oftast þessa vettlinga sem kallast Vík og eru með ullarblöndu.

Vettlingacombó: það er fátt betra en að fara í vel þæfða ullarvettlinga frá henni Höddu frænku minni á Brjánslæk þegar það verður kalt. Ef það er blautt eða mikill vindur fer ég í hlífðarskel yfir en þær fást í flestum útivistarbúðum.

Eyrnaband: það er frábær kostur þegar það blæs úti en kannski of hlýtt fyrir húfuna. Ég nota það iðulega á daginn eða derhúfu.

Húfa: velja hlýjar húfur sem eru vel vindheldar um eyru. Ég held minni eins þurri og ég get svo hún nýtist mér líka í svefnpokanum að nóttu til.

Buff: já ég sagði buff! Þau eru ekki bara fyrir leikskólakrakka heldur frábær “multi” flík. Hentar til þess að vernda hálsakotið eða vitin sé mikið ryk eða öskurok og svo er hægt að sofa með það sé húfan blaut.

Þessi poki inniheldur allt sem ég þarf til matargerðar og til þess að njóta matarins.

Vatnsflöskur: ég var með tvær flöskur frá Light my fire sem hægt er að pakka saman í talsvert minna umfang þegar maður er ekki að nota þær. Ef ég er að ganga á svæði þar sem gott aðgengi er að vatni að þá nenni ég ómögulega að bera allar flöskurnar fullar. Þá er gott að pakka einni og eiga til góða.
Lítil vatnsflaska utan á pokann sem ég festi með karabínu neðst í axlarólina þannig að ég nái alltaf í hana þegar ég er þyrst. Ég vel að vera alltaf með litla flösku því lítersflöskurnar eru svo fyrirferðamiklar og dangla ansi mikið á göngunni.

Matarsett: þessi diskur er samanbrjótanlegur og tekur því ekkert pláss í pokanum. Elska allt sem hægt er að minnka eftir notkun.
Spork: almennt vel ég að hafa með mér skeið frá Primus úr stáli sem brotnar ekki en ég ákvað að gefa þessu séns og prófa. Sporkinn kom vel út en ég geymdi hann alltaf í hulstrinu til þess að verja hann.
Vasahnífurinn hentar jafnt til þess að smyrja brauð og redda allskonar vandamálum sem kunna að koma upp í ferðinni.

Eldunargræja: ég er mikill aðdáandi Jetboil og tek hann ávallt með mér. Talsvert fljótari að hita vatnið á þennan hátt en á hefðbundnum prímus.

Fjallabolli: mjög mikilvægur þar sem morgunstundin með kaffibollanum er ákaflega mikilvægt start inn í daginn 🙂

Í dag notumst við ansi mikið við tæknina og græjur sem krefjast rafhlaðna til þess að skila sínu verki.
Oftast vel ég lithium rafhlöður þar sem þær eru mun endingarbetri en hefðbundnar. Þær fást í raftækjaverslunum og kosta að vísu aðeins meira en eru klárlega þess virði.

GPS tækið mitt er með korti og ég er mjög ánægð með það. Bíður upp á marga skemmtilega fídusa en fyrst og fremst nota ég það til þess að komast leiðar minnar. Ég er þá búin að undirbúa leiðarval heima fyrir brottför til þess að auðvelda mér vinnuna í ferðinni sjálfri.

Áttaviti og kort: ég nota áttavitann minn talsvert mikið og kortið líka til þess að átta mig á leidarmyndinni í stærra samhengi.

Garmin Fenix 3: nýbúin að fjárfesta í þessu úri og ég elska það. Ég er pínu tölfræði nörd og finnst gaman að rýna í upplýsingarnar sem úrið gefur mér. Nýtist líka sem backup fyrir GPS tækið.

Hleðslugræja: ég tek alltaf einn hlaðinn pakka með mér sem ég nota til þess að hlaða símann eða úrið á leiðinni.

Skyndihjálparbúnaðurinn þarf ekki að vera flókinn en hann er mjög mikilvægur og auðvitað þarf að kunna að nota hann.

Bakpokann sjálfan er ég búinn að eiga í ein 11 ár og svefnpokann líka. Þetta er sérstakur kvennapoki og hægt er að stilla hann á mjög nákvæman hátt svo hann henti þeim sem ber hann hverju sinni. Það er alveg glatað að vera með poka sem passar manni ekki og þá fer þyngdin að draga úr manni og það fer að bera á núnings óþægindum og verkjum eftir pokann. Ég á eina þrjá mismunandi poka frá þessu merki og get ekki dásamað það nóg.

Svefnpokinn er kominn til ára sinna en var nokkuð nettur þegar hann var keyptur. Þetta er 3ja seasona poki og sá mest notaði af þeim sem ég á.

Dýnan er frá Thermarest og er frábær. Hún pakkast mjög vel en þegar búið er að blása hana upp er hún bæði þykk og kósý. Ég er líka með lítinn Thermarest kodda ofan í pokanum sem mér finnst ómissandi.

Göngustafir: Þetta eru veglegir stafir frá Leki sem ég hef notað síðustu tvö ár. Þegar maður gengur niður brekku að þá er allt að sex sinnum meira álag á hnén og ég tala nú ekki um þegar maður er með fullhlaðinn poka á bakinu. Stafirnir dreifa álaginu á fjóra punkta í staðinn fyrir tvo. Algjört þarfaþing í gönguferðir.

Þetta eru mínir uppáhalds gönguskór og eru frá Lasportiva og kallast Trango guide. Þetta eru allra bestu alhliða gönguskór sem ég hef notað.

Þegar ég pakka öllu ofan í pokann að þá er ég annað hvort með mjög stórann vatnsheldan poka eða svartan rusla poka til þess að halda öllu dótinu þurru. Það vill enginn sofa í blautum svefnpoka eða að nestið manns sé orðið sósað eftir rigningardag.

Já hver segir að maður þurfi að hætta að punta sig þó haldið sé til fjalla. Það er kannski í lágmarki en manni líður alltaf betur þegar maður getur frískað sig upp.
Í snyrtiveskinu mínu er að finna mini útgáfur af tannkremi, tannbursta, svitalyktaeyði, þurrsjampó, rakakremi og sólarvörn.
Sólgleraugu eru algjört þarfaþing og ég er með sérstök útivistargleraugu sem ég nota einungis í ferðum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *