Miklu máli skiptir að vanda valið vel þegar kemur að búnaði og vistum fyrir pólleiðangra. Það er óhætt að segja að talsverður tími hefur farið í búnaðarpælingar og val á réttu græjunum. Við ákvarðanatöku er notast við eigin reynslu og ábendingar frá reyndum leiðangursmönnum. Hér að neðan er að finna lista yfir þann búnað sem ég hef valið til ferðarinnar.

Tjald

Eftir mikil heilabrot ákvað ég að velja Hilleberg Nammjat 2GT. Þetta eru braggatjöld sem eru einstaklega sterkbyggð og henta því vel til þess að takast á við heimskautastorma. Helstu kostir þess eru: innra tjaldið er fast innan í og því einstaklega auðvelt að setja það upp, hægt er að geyma súlurnar í tjaldinu þegar það er tekið niður en það er ákaflega góður kostur þegar tjalda þarf í flýti vegna veðuraðstæðna, tjaldið er rúmgott og fortjaldið vel hannað og því mikið pláss til að athafna sig.

Gera þarf eina viðbót við hönnunina og sauma á það tjaldskarir en þær eru ómissandi út á jökulbreiðunni. Til þess að gera tjaldið léttara og meðfærilegra eru skorin úr því flugnanetið og skipt um þurrksnúru.

Hér má lesa nánar um Hilleberg tjöldin.

Sleðar

Miklar pælingar fóru í að velja hvernig púlku eða sleða ætti að nota í ferðinni. Eftir að hafa farið yfir kostina í stöðunni var ákveðið að fara með tvo Paris Expedition sleða í stað þess að fá eina kevlar púlku. Sleðarnir eru því bundnir saman hver á eftir öðrum. Kostir þess að velja þetta kerfi eru: mun ódýrara val, léttari kostur sem þýðir jafnframt minni yfirvigt og enginn afgreiðslufrestur á pöntunum.  Einn af áhyggjuþáttunum í ferðinni er að bensín hellist niður eða leki úr brúsunum og skemmi vistirnar en með því að nota tvo sleða má pakka vistum og bensíni í sitthvorn sleðann. Auk þess renna sleðarnir einstaklega vel. Ofan í sleðana eru notaðir púlkupokar frá Tjaldborg, þeir eru vatnsþéttir og rúmgóðir ásamt því að vera hannaðir á þann hátt að í neyð má nota þá sem skjól með því að setja svefnpokann sinn og dýnuna ofan í.

Svefnbúnaður

Þar sem ég er ekki nema 165 cm á hæð hefur mér reynst erfitt að finna góðan svefnpoka fyrir mína hæð. Mikilvægt er að pokinn sé eins léttur og mögulegt er, ásamt því að vera einstaklega hlýr. Eftir umfangsmikila leit á netinu komst ég að þeirri niðurstöðu að ég yrði að fá sérsaumaðan svefnpoka. Eftir ábendingar fann ég fyrirtæki í Bretlandi sem sérhæfir sig í ýmsum útbúnaði fyrir leiðangra og vert er að taka það fram að þekkingin og þjónustulundin er einstaklega góð. Fyrirtækið heitir PHD Mountain Software og býður upp á þann möguleika að sérsauma svefnpoka. Það tók mig nokkra stund að ákveða hvernig pokinn minn ætti að vera en niðurstaðan varð þessi: gulur poki (svo gott að hafa bjarta liti í kringum sig) með 900 dúnfyllingu, stutt útgáfa (fyrir allt að 168 cm), hálfrenndur sem gerir pokann bæði hlýrri og léttari. Þá er pokinn saumaður með “high teck” aðferð og sniði sem hámarkar eiginleika pokans. Með þessu fæ ég poka sem er 1640 gr og þolir – 42°.

Notast er við tvær dýnur sem undirlag, önnur þeirra er Thermarest 4 árstíða sjálfuppblásanleg dýna og hin er Ridgerest einangrunardýna sem höfð er undir loftdýnunni.

Skíði, skór og stafir

Notast er við Fischer Crown BCX skíði í leiðangurinn. Skíðin eru ákaflega sterk og með stálköntum og hef ég notast við slík skíði í fyrri leiðöngrum mínum. Til þess að geta dregið sleðana upp í móti eru sett skinn undir skíðin, þau eru skrúfuð niður því annars eiga þau á hættu að losna undan skíðunum í kuldanum. Mikilvægt er að reyna að koma í veg fyrir allt óþarfa umstang á ísnum. Skíðastafirnir eru frá sama fyrirtæki. Bindingarnar eru af gerðinni Rottefella og fyrir 75 mm bindingar en þær þykja nokkuð öruggar og þola mikið álag. Til vara er ein auka binding með í för.

Öllu erfiðara er að nálgast skóna sem eru ófáanlegir hér á landi. Nær allir pólfarar nota sömu tegundina af skóm frá norska fyrirtækinu Alfa. Skórnir eru hannaðir af hinum þekkta leiðangursmanni Sjur Mørdre og Jacob Ihlen og kallast Alfa Modre Pro. Þeir eru tvískiptir og innri skórinn úr ullarflóka. Það gerir þá einstaklega hlýja og möguleiki er að taka innri skóinn inn í tjald á nóttinni sem hefur þann kost í för með sér að ekki þarf að fara í frosna skó að morgni.

Samskiptatæki

Að hafa góð samskiptatæki er einn af mikilvægustu hlutum ferðarinnar, án þeirra get ég ekki látið vita um afdrif mín ef ég slasast eða veikist. Þá er einnig hafin leit ef ekkert spyrst til mín í tvo sólarhringa. Ekki er hefðbundið símasamband á Suðurskautinu og því þarf að notast við gervihnattasíma.  Fyrir valinu varð Iridium Extreme sem er einn af fáum símum sem er útbúinn þessum kostum. Síminn er algjört töfratæki en úr honum get ég sent stutta tölvupósta sem uppfæra sjálfkrafa heimasíðuna. Einnig get ég sent GPS staðsetningu beint úr símanum ef ég lendi í neyð. Síminn er því mitt helsta öryggistæki. Sónar í Hafnarfirði er með bestu þjónustuna á þessu sviði en þar er einnig hægt að fá kort í símana, bæði fyrirfram greidd þar sem ekki þarf að greiða fastagjald sem og hefðbundna reikninga.

Fatnaður

Allur fatnaður í leiðangurinn kemur frá 66°Norður. Notast er við þriggja laga kerfi sem byggir á því að klæða sig í fleiri lög af fötum en eitt þykkt lag. Þannig eru ullarnærfötin innsta lagið og færa svitann og rakann frá húðinni. Ullin heldur vel eiginleikum sínum þó hún verði aðeins þvöl sem gerir hana að lang besta kostinum sem innsta lag. Ofan á það kemur svo þunnt flís lag og má segja að power streach peysurnar og buxurnar séu góður kostur en þær flytja rakann áfram og þorna hratt auk þess hafa þær einstaklega góða hettu og ermarnar eru langar með götum fyrir þumlana, þannig þarf maður aldrei að pirra sig á því að peysuermin sé upprúlluð inn í jakkanum.  Mosfell, Thermal Pro peysan er einstaklega hlý, hún er því “þykka peysan” í ferðinni en hún hefur þá eiginleika að geta dregið í sig mikið loft og þar með einangra vel. Ysta lagið er svo vind- og vatnshelt og fyrir valinu urðu Vatnajökull smekkbuxur og jakki.

Til viðbótar við þetta er notast við dúnvesti á göngunni og dúnjakkinn er alltaf við hendina þegar stoppað er til lengri eða skemmri tíma. Þar að auki er mikilvægt að nota andlitsgrímu þegar vindkæling er mikil og eins að vera með góða lambúshettu og ullarkraga. Hlý húfa og ullarvettlingar innan í vindheldri skel eru staðalbúnaður og til viðbótar er eitt par af fingravettlingum notaðir til vinnu og dúnvettlingar þegar kuldinn verður óbærilegur.  Þegar komið er í tjald að kvöldi er fátt notalegra en að fara úr svitastorknum sokkunum og í hlýja dúnsokka.

Eldunarbúnaður

Þar sem kuldinn er mikill í ferðum sem þessari er einungis notast við bensínprímusa, fyrir valinu varð MSR Wisperlite en reynslan af þeim á Grænlandi var góð. Til þess að auka á öryggið eru tveir primusar með í för. Eldsneytið er í sérstökum brúsum sem eru tengdir við brennarann með pumpu, undir prímusnum er svo korkplatti til þess að koma í veg fyrir að snjórinn bráðni undan hitanum. Alls má reikna með 3 klst á dag í snjóbræðslu, fyrst á morgnana fyrir morgunmat og dagsskammt af drykkjarvatni og á kvöldin fyrir þurrmatinn og kvöldhressinguna.  Tveir hitabrúsar eru með í för en ákaflega gott er að geta fengið sér heitan drykk á göngunni. Þá eru einnig tveir álbrúsar fyrir drykkjarvatn en þeir eru svo geymdir sólarmegin svo það frjósi síður í þeim yfir daginn.

Úr

Mikilvægt er að geta fylgst vel með tímanum. Á Suðurskautinu þarf maður að velja sér tímabelti og ég mun fara eftir Chile tíma.  Ég verð með nýtt úr í leiðangrinum frá Michelsen úrsmiðum. Úrið er hannað með ferðalanga og útivistarfólk í huga. Úrið er þriggja tíma en tveir tímar geta ávallt verið á sitthvoru tímabeltinu á meðan þriðji tíminn er notaður til að reikna tímamismun. Úrkassinn, framleiddur úr hágæða ryðfríu stáli, er sterkur og vatnsþéttur sem hentar einstaklega vel til útivistar. Skífan, sem er hvít, er mjög skýr með stórum tölustöfum og strikum og vísarnir eru stórir og svartir sem skapa miklar andstæður við skífuna til að hámarka skýrleika. Gangverkið er sjálftrekkt (án rafhlöðu) og var valið sérstaklega fyrir þennan leiðangur því það þolir mikinn kulda; málmar gangverksins eru á þann veg gerðir að þeir dragast síður saman í kulda og olíurnar eru gerðar fyrir allt að -50° kulda, sem gerir nákvæmni gangverksins meiri en hefðbundin gangverk. Ólin er svo gerð úr nyloni fyrir hámarksþægindi en er einnig feykisterk.