Með gildi mín: jákvæðni, áræðni og hugrekki að leiðarljósi legg ég af stað frá Íslandi í byrjun nóvember. Leiðin liggur til Punta Arenas í Chile þar sem ég mun dvelja  í nokkra daga áður en flogið er  á Suðurskautið. Áætlaður flugdagur er 11. nóvember. Þar mun ég dvelja í búðum ALE þangað til flogið verður með mig til strandarinnar við Ronnie íshelluna. Upphaf leiðarinnar er við Hercules Inlet. Leiðin er 1140 km og búast má við miklum mótvind, erfiðu skíðafæri og rifsköflum.

Áætlaðir göngudagar eru 50 talsins, en til þess að ná því þarf að ganga að meðaltali 22 km á dag. Búast má við styttri vegalengdum í byrjun á meðan ég er að venjast aðstæðum og sleðinn er fulllestaður. Eftir því sem gengur á birgðirnar verður sleðinn léttari og gera má ráð fyrir að hann léttist um 1 kg á dag. Þegar líða tekur á gönguna ganga dagsverkin einnig hraðar.

Ég verð með tvo sleða fyrir vistir og útbúnað sem vega  ríflega 115 kg. Miklu máli skiptir að fara vel útbúinn í leiðangur sem þennan og að geta brugðist við hinum ýmsu aðstæðum sem upp geta komið. Á meðan á leiðangrinum stendur mun ég vera í daglegum samskiptum við fulltrúa ALE til þess að gefa upp staðsetningu og fá nauðsynlegar upplýsingar s.s. veðurspá næstu daga.

Undirbúningur að leiðangri sem þessum tekur mikinn tíma og huga þarf að mörgum þáttum sem tengjast búnaði, vistum, leiðinni sjálfri og ekki síst þjálfun, bæði líkamlegri og andlegri. Mikil áhersla er lögð á æfingar utandyra t.d. gönguferðir, hjólreiðar og fjallgöngur. Til þess að æfa sleðadrátt er dreginn sleði með lóðum til þess að venjast þyngdinni. Ég legg mikla áherslu á andlegan undirbúning fyrir ferðina, þegar á úti æfingum stendur set ég mig ávallt inn í erfiðar aðstæður í huganum s.s. vonsku veður, erfitt færi og þess háttar aðstæður.

Hver dagur í leiðangrinum er áskorun og líkamlegt erfiði. Áætluð brennsla á dag er um 6000 hitaeiningar. Maturinn þarf því bæði að vera orkuríkur, fara vel í maga og má alls ekki vega mikið. Matarræðið einkennist af: þurrmati, fitu, harðfisk, múslí, kexi og súkkulaði. Á hverjum morgni þarf að bræða snjó fyrir dagsneyslu en morgunverkin geta tekið allt að tveimur tímum.