Lambi leiðangursstjóri

Lambi kom inn í líf mitt fyrir nokkrum dögum. Það fór strax vel á með okkur svo ég ákvað að bjóða honum með í leiðangurinn. Lambi er léttur, skemmtilegur og úrræðagóður liðsmaður svo er hann líka nettur og viktar ekki nema 23 gr. Mér leist svo vel á hann að ég ákvað að hann fengi titilinn leiðangursstjóri enda vita allir að margur er knár þótt hann sé smár. Þegar við lendum í erfiðum aðstæðum úti á ísnum munum við saman vega og meta aðstæður og taka skynsamlegar ákvarðanir. Á Suðurskautinu þarf að sýna bæði gætni og skynsemi og þar gildir máltækið “betri er krókur en kelda”.

Saman munum við Lambi halda jólin og deila saman gleðistundum ásamt því að peppa hvort annað upp þegar á þarf að halda.  Stundum getur verið gott að losa og hreinsa til í huganum, sérstaklega þegar mikið mæðir á – þá er Lambi svo sannarlega betri en enginn enda kann hann að hlusta.

Í kvöld ætlum við Lambi að vikta mat og pakka í poka. Undirbúningur gengur vel og frábært að finna allan þennan meðbyr. Ég er líka ákaflega þakklát öllu því góða fólki sem hefur lagt mér lið síðustu daga.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *