Kærar þakkir til ykkar allra – fréttir og áheitasöfnunin.

Hæhó,

Það er langt síðan ég hef skrifað hér inn og langaði því til þess að segja ykkur aðeins frá lífinu síðustu mánuði. Það eru tveir og hálfur mánuður síðan ég kom heim og tíminn hefur verið mjög fljótur að líða enda búið að vera mikið að gera. Ég er ákaflega þakklát fyrir allar hlýju og höfðinglegu mótttökurnar sem ég hef fengið og búin að hitta mikið af skemmtilegu fólki. Á þessum tíma hef ég heimsótt ótal vinnustaði, skóla og félagasamtök og fengið tækifæri til þess að segja frá leiðangrinum á Suðurpólinn.  Það er frábært að hafa svona mikið að gera manni leiðist allavegana ekki á meðan auk þess er það líka ágætt á meðan maður trappar sig niður eftir að hafa helgað líf sitt þessum leiðangri í langan tíma. Ég lýsi því oft að það sé eins og að verða ástfanginn þegar maður fellur fyrir leiðangri. Þetta er það fyrsta sem maður hugsar um á morgnana, maður er nánast óvinnufær á daginn af því leiðangurinn er alltaf að poppa upp í kollinum á manni, maður hugsar um þetta á kvöldin og dreymir leiðangurinn á nóttunni !   Nú eru ný og spennandi ævintýri handan við hornið 🙂

Eftir að ég kom heim hef ég líka verið að æfa með frábærum þjálfara, Mark en hann er í World Class í Kringlunni.  Hann hvetur mig áfram, heldur mér við efnið og lætur mig gera allskonar æfingar sem gera mig sterkari og færari til þess að takast á við næsta verkefni. Í maí mun ég halda af stað frá Íslandi í félagi við Sigga Bjarna vin minn og saman ætlum við að klífa Denali, hæsta fjall Norður Ameríku. Það er mikil eftirvænting og spenna á þessum bæ. Fjallið er 6194 mys hátt og það er mikil áskorun að klífa það.  Helmingur þeirra sem reyna á ári hverju hafa erindi sem erfiði og því er ekkert gefins í þessu efni.

Að lokum langaði mér að segja ykkur  frá Lífsspors söfnuninni en hún gekk vonum framar. Í upphafi vissum við ekki hvers var að vænta og hverri krónu fagnað en árangurinn fór langt fram úr björtustu vonum. Í dag hafa safnast 37 milljónir sem fara í uppbyggingu á kvennadeild Landspítalans. Nú þegar eru hafnar framkvæmdir við kvenlækningadeildina þar sem fyrsta verk á dagskrá er að útbúa aðstandenda herbergi og einbýli fyrir mikið veikar konur og aðstandendur þeirra.  Við erum gríðarlega þakklát fyrir allan stuðninginn og framlögin. Án ykkar hefði ekki komið til þessara framkvæmda og óvíst hvenær betrumbót hefði orðið.  Enn og aftur TAKK !

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *