Frá Base Camp – Everest

Kæru vinir,

Eins og þið etv vitið ríkir algört neyðarástand hér í Nepal. Hjarta mitt slær með þeim sem eiga um sárt að binda, misst hafa heimili og ástvini. Við misstum 5 manns í kjölfarið á jarðskjálftanum og 9 slösuðust. Við syrgjum látna félaga og sendum fallegar hugsanir til hinna slösuðu. Sjálf er ég mjög þakklát fyrir að vera á lífi eftir þessar náttúruhamfarir. Ef að ég hefði verið stödd í tjaldinu mínu hefði ekki þurft sð spyrja að leikslokum. Kampurinn okkar er gjörónýtur.
Við vorum stödd í búðum eitt þegar stóri skjálftinn varð. Ég lá í tjaldinu mínu að slappa af þegar ég fann titringinn, verandi á skriðjökli stökk ég út til að kanna hvað var um að vera. Erfitt var að átta sig á aðstæðum og fljótlega fórum við að heyra í snjóflóðum. Við stukkum inn í tjald og grúfðum okkur niður og óskuðum þess heitast að það næði ekki til okkar. Hjartað sló hratt og óttinn var yfirgnæfandi. Búðirnar sluppu og við sátun eftir í stóru púðurskýi, það næsta sem við heyrðum var að ekkert væri eftir af búðunum okkar niðri. Smá saman fengum við fleiri bita í púsluspilið og myndin var skelfileg. Það var erfitt að vera fastur og geta lítið lagt af mörkum. Næstu klukkustundir og næsta nótt voru erfið. Ég hef aldrei verið jafn hrædd. Ég kom niður í base camp í gær og það vaf mikið àfall að sjá hvernig var umhorfs. Staðan í þorpunum í kringum okkur er mjög slæm.
Við erum nú að hreinsa umhverfið okkar en ekki er ljóst hvenær við leggjum af stað til höfuðborgarinnar. Við erum skelkuð eftir atburði síðustu daga en að öðru leiti hraust.

Kærar kveðjur, Vilborg Arna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *