Annasamir dagar

Það er óhætt að segja að mikið sé að gera síðustu dagana fyrir brottför. Nú eru einungis níu dagar þar til ég fer af landinu, fyrsta stopp er í London en þar mun ég stoppa í tvo og hálfan dag. Þannig hef ég smá tíma til þess að útrétta smáveigis áður en ég held áfram áleiðis til Chile.  Ferðalagið þangað er langt og áætlaður ferðatími er 27 klst og inniheldur tvær millilendingar. Loks kem ég svo til Punta Arneas að kvöldi 6. nóvember.  Í samkomulaginu sem ég hef gert við ALE ber mér að vera mætt amk fjórum dögum fyrir áætlaða brottför á Suðurskautið. Dagarnir eru  skipulagðir og mun ég funda með fulltrúum ALE þar sem ég geri grein fyrir búnaði mínum og áætlunum í síðasta skipti fyrir brottför. Þá eru einnig kynningarfundir um Suðurskautið og ábyrga ferðahegðun en uppfylla þarf ýmis skilyrði á ferðalaginu.   Varadagarnir einnig ætlaðir til þess að leysa úr ýmsum vandamálum sem geta komið upp á leiðinni svo sem að farangurinn skili sér ekki alla leið o.s.frv.

Þessi vika og sú næsta er tileinkuð lokafrágangi fyrir ferðina og næg eru verkefnin.  Núna er t.d. verið að sauma úlfaskinnið á hettuna mína, klára að plasta kortin og ýmislegt. Helgin verður svo tileinkuð pökkun og frágangi. Vikta þarf matinn nákvæmlega og pakka hverjum skammti í poka.  Í leiðangrinum er mikilvægt að fylgja ákveðinni rútínu og persónulega finnst mér best að borða alltaf eins. Þannig veit ég nákvæmlega hvað ég fæ út úr matninum mínum og er ekki að taka neina sénsa.

Að lokum langar mig að þakka öllu því frábæra fólki sem hefur aðstoðað mig síðustu daga. Hvar sem ég hef komið hefur fólk verið boðið og búið við að hjálpa mér við framkvæmdina á leiðangrinum. Það er algjörlega ómetanlegt !

This Post Has 2 Comments

  1. Gangi þér ofsalega vel frænka sæl á leiðangri þínum um suðurskautið. Farðu samt varlega og komdu heil heim!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *