Fyrir ári síðan…

Nú er komið eitt ár síðan ég sagði upp vinnunni og ákvað að elta ástina í lífi mínu.  Það var þó ekki karlmaður sem ég var að elta heldur þráði ég ekkert heitar en að komast á Suðurpólinn og jafnvel á fleiri staði.  Maður getur nefnilega orðið ástfanginn af fleiru en einstaklingum.

Daginn sem ég hætti í vinnunni var ég ekki búin að klára að fjármagna leiðangurinn minn og líkurnar á að það myndi takast voru mér ekki í hag. Því hefði ég hæglega getað orðið atvinnulaus „wannabe“ pólfari.  Þar sem ég þráði ekkert heitara í lífinu en að komast á þennan syðsta punkt jarðar að þá ákvað ég að taka slaginn, alla leið ætlaði ég að komast.  Upphaflega hafði ég ætlað í leiðangurinn 2011 en aðstæðurnar höguðu því þannig að ég varð að fresta för um eitt ár. Það er skemmst frá því að segja að ég varð nokkuð „heartbroken“  við þá ákvörðun og það fylgdi mér allan veturinn. Innra með mér toguðust á andstæður, að stökkva út í hið óþekkta eða vera í öryggisnetinu sem ég hafði komið mér upp.  Ég hafði nýlega verið ráðin í mjög gott og spennandi starf. Á vissan hátt fannst mér ég vera að bregðast og vera eigingjörn að taka ákvörðunina en á sama tíma vissi ég að ég hreinlega yrði að láta þetta verða að veruleika.  Það var allt á iði í kollinum á mér, aðra stundina sá ég fyrir mér þegar ég myndi ná pólnum og hina hugsaði ég um vinnuna. Daginn sem ég tók endanlega ákvörðun um að láta vaða var ég ákaflega utan við mig, heyrði ekki þegar á mig var yrt, svaraði út í bláinn og gleymdi gönguskónum mínum í Álftavatni.

Nú ári seinna get ég ekki sagt annað en að ég sé himinlifandi að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég náði ekki bara á pólinn heldur er ég að lifa lífinu sem mig hefur alltaf dreymt um.  Á fjöllum og út í náttúrunni er ég besta útgáfan af sjálfri mér og þar líður mér best. Auðvitað koma líka erfiðir og misjafnir dagar þar eins og allstaðar annars staðar.

Ég hef verið svo heppin að kynnast ótrúlega hæfileikaríku fólki um allan heim og fengið óviðjafnanlegan stuðning að heiman.  Á næstu mánuðum mun ég svo halda áfram að klífa tindana sjö þar til að ég klára á Everest í vor.

Ég er líka að vinna að þeim verkefnum sem mig hefur alltaf langað til; útilífsbók og námskeið fyrir börn, fyrirlestrar, fjallaferðir með skemmtilegu fólki og nú er enn eitt verkefnið í uppsiglingu sem er mitt hjartnans mál. Ég viðurkenni að stundum er mikið að gera og dagskráin er þétt skipuð frá morgni til kvölds, þetta er stundum línudans en þetta er bæði gefandi og gaman. Þetta er þess virði.

Ef að þið hafið ekki séð þetta myndband að þá er alveg þess virði að nota næstu þrjár mínutur til þess:  https://www.facebook.com/photo.php?v=10151079446802066

This Post Has One Comment

Leave a Reply to Ragnar Torfi Cancel comment reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *